Falleg lömb Torfi Aðalsteinsson, frístundabóndi og kindakarl, ásamt syni sínum Gunnari Kjartani Torfasyni og Hildi Önnu Brynjarsdóttur.
Falleg lömb Torfi Aðalsteinsson, frístundabóndi og kindakarl, ásamt syni sínum Gunnari Kjartani Torfasyni og Hildi Önnu Brynjarsdóttur. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atli Vigfússon Laxamýri Sauðburður stendur sem hæst og hafa sauðfjárbændur á Húsavík í nógu að snúast þessa dagana. Krakkarnir víkja ekki úr fjárhúsunum eftir að skóla lýkur á daginn.

Atli Vigfússon

Laxamýri

Sauðburður stendur sem hæst og hafa sauðfjárbændur á Húsavík í nógu að snúast þessa dagana. Krakkarnir víkja ekki úr fjárhúsunum eftir að skóla lýkur á daginn. Það nóg að sjá og skemmtilegt fyrir þau að taka þátt í ævintýrinu sem svo margir hafa gaman af.

Torfi Aðalsteinsson er frístundabóndi og félagi í Fjáreigendafélagi Húsavíkur. „Við erum aldir upp með kindum og höfum gaman af kindum. Þetta er frábær félagsskapur og það er mjög gefandi að vera í þessu,“ segir Torfi.

Hann býr með nokkrar kindur í Lækjarbrekku á Húsavík ásamt föður sínum Aðalsteini Þórólfssyni og bróður sínum Trausta Aðalsteinssyni. Þá er Óskar Karlsson þarna einnig með kindur og í næstu húsum eru aðrir húsvískir fjárbændur. Það er því ekki langt á milli manna og oft er farið í húsin hjá nágrönnunum og litið á lömbin og fleira sem gleður augað.

Hafa byggt sér reykhús

Fjáreigendafélag Húsavíkur hefur verið starfandi í áratugi, en nú eru þar yfir tuttugu frístundabændur sem eru með kindur. Áherslur eru mismunandi í ræktuninni, en víða má sjá mjög fjölbreytta liti og vel aldar kindur.

Hátíðisdagar eru nokkrir svo sem réttardagurinn og alltaf er fjöldi fólks á hrútasýningu sem haldin er á Mærudögum þ.e. bæjarhátíð Húsvíkinga.

Torfi ólst upp í Stóru-Tungu í Bárðardal og er því öllu vanur. Undanfarið hefur hann unnið á Filippseyjum við jarðboranir, en er í fríi heima í sauðburðinum. Hann segir að Aðalsteinn faðir sinn og Óskar Karlsson sjái mjög mikið um kindurnar yfir veturinn og séu alltaf komnir kl. hálfníu á morgnana í húsin. Þeir séu lengi í verkunum og mikið sé spjallað og síðan sé farið í kaffi og sagðar sögur. Þeir fara tvisvar á dag og seinna málið byrjar klukkan fjögur og þá er enn spjallað um kindurnar og fleira skemmtilegt.

Torfi segir að þeir hafi allt til alls, góð fjárhús, kæligeymslu undir kjöt og svo hafa þeir félagar byggt sér reykhús svo þarna verður til indælis hangikjöt. Hann segir að þetta sé heilsubætandi áhugamál sem öll fjölskyldan tekur þátt í.