[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Ný háspennulína í lofti, sunnan við Akureyrarflugvöll, raskar ekki flugöryggi að mati Landsnets.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Ný háspennulína í lofti, sunnan við Akureyrarflugvöll, raskar ekki flugöryggi að mati Landsnets. Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, greindi frá þessu á vorfundi Samorku á Akureyri í fyrradag. Lengi hefur verið deilt um málið og flugmenn og flugrekendur á Akureyrarflugvelli eru Landsneti mjög ósammála.

Guðmundur Ingi sagði að áhættumat hefði verið unnið vegna nálægðar flugvallarins og kynnti sýnileikagreiningu fyrir leiðarval loftlínu þar sem búið er að taka tillit til áhættumatsins og draga úr sjónrænum áhrifum.

„Mér finnst þetta glannaleg túlkun hjá honum og það stenst enga skoðun að háspennulína þarna hafi engin áhrif á flugöryggi,“ segir Víðir Gíslason, flugmaður á Akureyri, við Morgunblaðið, en hann hefur lengi verið í fararbroddi þeirra sem berjast gegn því að háspennustrengur í lofti verði lagður á þessum stað heldur verði komið fyrir í jörðu.

„Það kemur bæði fram í niðurstöðu Samgöngustofu og áhættumatinu sem framkvæmt var fyrir Isavia, að háspennulína hafi neikvæð áhrif á flugöryggi í Eyjafirði,“ segir Víðir.

Víðir var einn þriggja þátttakenda að norðan við gerð áhættumatsins sem áður var nefnt. Hann segir málið flókið og margþætt. „Þeir sem komu að áhættumatinu og gættu hagsmuna Akureyrarflugvallar eru ekki sammála túlkun aðstoðarforstjóra Landsnets og svo er reyndar um mun fleiri. Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til, vegna flugöryggis, að lagður verði jarðstrengur svo dæmi sé tekið. Landsnet horfir því ekki á málið frá bestu sjónarmiðum um flugöryggi í Eyjafirði. Í úrskurði frá Isavia [sem er framkvæmdaraðili og rekstraraðili flugvallarins] segir að háspennulína hefði þolanleg áhrif, en samt áhrif og það neikvæð. Það hefur komið fram að jarðstrengur er miklu betri kostur með tilliti til öryggis fyrir flug.“

Víðir Gíslason heldur því fram að verði háspennulína lögð í lofti svo nálægt flugvellinum geti það haft truflandi áhrif á leiðsögubúnað á jörðu niðri og í flugvélum í blindflugi. „Mér finnst að það verði líka að koma fram að umfjöllun Isavia og Samgöngustofu tók ekki tillit til ísingar- og seltuhættu sem veldur áhrifum á Íslandi. Ráðgjafar mældu áhrif vegna súldar í Hollandi, yfirfærðu á Eyjafjörð og sögðu eftir það að línurnar hér yrðu í lagi.“

Víðir heldur áfram: „Fólk hefur margoft séð myndir af mikilli ísingu á háspennulínum, hún getur valdið bilun í einangrun sem getur valdið neistaflugi og sá neisti veldur rafbylgjum sem geta farið á sömu tíðni og er á leiðsögumerkjunum. Þetta er því mikið alvörumál,“ segir Víðir Gíslason.

Guðmundur Ingi sagði á vorfundi Samorku að sýnileikagreiningin, sem nefnd var í upphafi, benti til þess að loftlína yrði ekki mjög áberandi frá byggðinni á Akureyri.

Unnið er að frummati á jarðstrengslögnum, að sögn Guðmundar Inga, vegna möguleika á því að strengurinn yrði lagður í jörðu þvert yfir fjörðinn skammt sunnan flugvallarins. Nefndi Guðmundur ýmsa þætti sem hafa þyrfti í huga ef sú leið yrði farin, aðallega atriði sem snúa að náttúrunni. Hann nefndi til dæmis að jarðstrengur yrði að mestu innan skipulags þéttbýlis og myndi því þvera lagnir og vegi, og vera í nálægð við íbúðarhúsnæði.

Í Kjarnaskógi myndi þurfa að ryðja um 20 metra breiða leið fyrir jarðstreng að sögn Guðmundar og strengurinn myndi fara yfir óshólma Eyjafjarðar, sem eru á náttúruminjaskrá, sagði hann. Hugsanlega þyrfti að leggja þar nýjar vegslóðir, ef strengleiðin yrði önnur en meðfram gamla veginum.

Guðmundur Ingi sagði að í leysingum stæði vatn hátt í óshólmanum sem gæti torveldað viðgerð jarðstrengja. Hann sagði að einnig þyrfti að kanna áhrif segulsviðs á flugið, í og við flugbrautina, gera ráðstafanir til að gera við strengi ef farið yrði undir flugbrautina og gera ráðstafanir vegna viðgerða við enda flugbrautarinnar. Þá þyrfti að athuga áhrif strengjanna á lífríki Eyjafjarðarár og huga sérstaklega að áhrifum lágs skammhlaupsafls á svæðinu á mögulega strengnotkun.