Skólahús Skólinn er stundum sagður hjarta hvers samfélags. Krökkum í Þykkvabæ er ekið til mennta á Hellu og húsið stendur að mestu autt.
Skólahús Skólinn er stundum sagður hjarta hvers samfélags. Krökkum í Þykkvabæ er ekið til mennta á Hellu og húsið stendur að mestu autt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ellefu bændur setja niður kartöflur í Þykkvavæ á þessu vori og eru akrar þeirra rúmlega 400 hektarar. Þetta er mikil breyting, því þegar best lét voru bændurnir nærri sextíu og sveitarbragur því annar.

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ellefu bændur setja niður kartöflur í Þykkvavæ á þessu vori og eru akrar þeirra rúmlega 400 hektarar. Þetta er mikil breyting, því þegar best lét voru bændurnir nærri sextíu og sveitarbragur því annar. „Á margan hátt er þetta í samræmi við þróun tímans. Þeir bændur sem minnst umsvif eru með hafa helst úr lestinni en aðrir styrkst. Hér eru ræktuð sennilega 8.000 tonn af kartöflum á ári og hefur það verið verið á því róli, þó framleiðendum hafi fækkað. Frá ári til árs er heildaruppskeran annars breytileg og ræðst að mestu af veðráttu hvers sumars,“ segir Sigurbjartur Pálsson, bóndi í Skarði.

Miðbær með skóla og kirkju

Byggðin í Þykkvabæ er dreifð, frá bæjunum austur við Hólsá og út í Háfshverfi eru um sjö kílómetrar. Svo má líka velta upp hvort Þykkvibærinn sé þorp, enda eru íbúarnir ekki nema 55, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Heimamenn sjálfir nota þó önnur óformlegri viðmið og telja íbúana losa rúmlega 80. Hér eru nákvæmar tölur þó ekki aðalatriði, punkturinn í málinu er sá að fólkinu hefur fækkað. Þykkbæingar voru um 260 fyrir þrjátíu árum.

Frá Ægissíðu við Hellu eru 16 kílómetrar í Þykkvabæinn. Vegurinn liggur um sléttlendi niður með Ytri-Rangá sem síðar verður Hólsá. Og svo er komið í sveitaþorpið. Nokkur þyrping bæja og húsa myndar einskonar miðbæ, þar sem eru kirkja, félagsheimili, skólabygging og verksmiðja þar sem framleiddar eru franskar kartöflur og fleira slíkt.

Um 25 ár eru síðan verslunarrekstur í byggðarlaginu lagðist af. Og fyrir um áratug þegar aðeins fjórtán krakkar voru eftir í 1.-7. bekk grunnskólans, var starfseminni hætt. Er öllum börnunum í byggðinni nú ekið í skóla á Hellu.

Þykkvabæjar er fyrst getið í heimildum frá árinu 1220 og sumir segja þetta elsta þorp eða þéttbýlisstað á landinu. Byggðin var lengi blómleg og fyrr á tíð var til þess tekið að íbúarnir voru afar samtaka við lausn ýmissa viðfangsefna. Lengi var það svo að flæðandi vötn umluktu byggðina sem þá var eins og eyja í grænum sjó. Það var um 1930 sem karlarnir í sveitinni tóku sig saman og reistu varnargarða svo byggðin komst á þurrt land.

„Þegar fór að rakna úr fyrir þjóðinni stóðu Þykkbæingar að vísu miklu betur að vígi heldur en dreifbyggðar sveitir. Það var þeim mikið hagræði, að byggðin stóð „þykkt“, Þar gat haldizt í hendur verkaskipting og samstarf,“ segir Árni Óla í Þykkvabæjarbók sinni, Þúsund ára sveitaþorp, sem út kom árið 1962.

Kartöflur og egg voru skiptimynt

Sendinn og moldarblandaður jarðvegur skapar kjöraðstæður til kartöfluræktunar í Þykkvabæ og menn þar í sveit komust fljótt upp á lagið við slíkan búskap. Sú var tíðin að bændurnir seldu sínar afurðir í gegnum Grænmetisverslun landbúnaðarins sem var að nokkru leyti ríkisrekið fyrirtæki.

„Rigningarsumarið 1983 brást uppskera hér og þá var gripið til þess ráðs að flytja inn kartöflur frá Finnlandi sem reyndust skemmdar af völdum hringrots. Mikil umræða skapaðist um þetta sem átti sjálfsagt sinn þátt í því að þetta hálfopinbera sölufyrirtæki lagði upp laupana,“ segir Sigurbjartur og heldur áfram: „Eftir þetta opnaðist markaðurinn. Bændur fóru sjálfir að selja afurðir og um 1990 urðu miklar breytingar á smásölumarkaði með lágvöruverðsverslunum. Þar voru kartöflur og egg notuð sem einskonar skiptimynt til þess að keyra áfram verðstríð, bæði í smásölu og afurðaverði. Tekjur manna snarminnkuðu og allmargir brugðu búi og fluttu héðan. Höfðu engan valkost í stöðunni. Samkeppnin breytti öllu, þótt nú sé þetta komið aftur í ögn betri farveg. Þeir sem áfram búa eru að minnsta kosti ekki að berjast innbyrðis.“

Sveiflur í búskapnum

Um 70% allra þeirra kartaflna sem á borðum Íslendinga eru koma frá Þykkvabæjarbændum. „Það eru sveiflur í þessum búskap. Stundum herja sjúkdómar á ræktunina og svo koma köld sumur eða rigningartíð,“ segir Sigurbjartur. Hann segir algengt skilaverð í dag vera um 70 kr. á kílóið. Það sleppi til en verðið þurfi augljóslega að vera hærra svo bændur geti fjárfest, komið sér upp varasjóði og fært út kvíarnar.

„Sú var tíðin að verð fyrir kíló af kartöflum og mjólkurlítrinn stóð á pari. Í dag fá kúabændur 120 kr. fyrir lítrann, það er frá afurðastöð og beingreiðslur. Ef við yrðum jafnsettir mjólkurframleiðendum með tekjur værum við í bara mjög fínum málum,“ segir Sigurbjartur.

Þurfa hringtengingu

En þrátt fyrir að margt hafi undan látið í Þykkvabæ á síðustu áratugum segir Sigurbjartur ýmsa möguleika til viðreisnar fyrir hendi. Dæmi séu um að fólk hafi flutt í þorpið og stundað minniháttar búskap en jafnvel sótt vinnu sína út í frá. Einnig séu tækifæri á sviði ferðaþjónustu, en þá séu samgöngubætur nauðsynlegar. Í dag sé aðeins ein leið í Þykkvabæinn, það er vegurinn frá Ægissíðu sem hér að framan segir frá. Til bóta er talið ef vegurinn sem liggur frá Landvegamótum fram í Ásahverfi í Holtum og að Sandhólaferju við Þjórsá hringtengdist Þykkvabæ.

„Þarna er í dag torfær slóði, en góður vegur myndi gjörbreyta aðstæðum. Og vonandi kemur sú tíð – og þá verður gaman hér í sveitinni,“ segir Sigurbjartur um sveitina sína sem að sumu leyti er eins og sjávarþorp á Vestfjörðum. Hér standa húsin standa auð, fólkið er farið og atvinnulífið gjörbreytt. En það kemur alltaf nýr dagur með tækfærum - kartöflugrösin stinga sér upp úr moldinni á vorin og á haustin er uppskerutíð.

Gaggalagú - klukkan þrjú

Í Þykkvabæ eru hinir einu sönnu morgunhanar. Það er um klukkan þrjú á nóttinni sem fuglar Júlíusar Más Baldurssonar, sem stendur að Landnámshænsnasetri Íslands, hoppa niður af prikinu og fyrstur fer haninn sem lætur í sér heyra með hvellum hljómi. Syngur sitt gaggalagú og þá byrja hænurnar að kvaka.

Júlíus Már var lengi með starfsemi sína að Tjörn á Vatnsnesi, þar sem allt eyðilagðist í eldsvoða snemma árs 2010.

„Hver einasti fugl drapst,“ segir Júlíus sem flutti í Dísukot í Þykkvabæ á síðasta ári. Þar er hann með um 300 fugla og væntir þess að frjó egg sem eru þessa dagana í útungunarvélum skili honum kynstrunum öllum af ungum í páskalit vonarinnar.

„Stofn íslenskra landnámshænsna var á tímabili nærri því að deyja út. Nú er hann hins vegar orðinn allstór. Talsvert er um að fólk sem býr til sveita og raunar líka í þéttbýli komi hingað og kaupi hænur eða unga til eldis og ég sendi vítt og breitt um landið. Þá er ég að selja vistvæn egg á markað og þetta dæmi er alveg að gera sig,“ segir Júlíus í Dísukoti.

Franskar, plokkfiskur og rafmagn

Þó margt hafi breyst í Þykkvabæ og látið undan eru þar líka sprotar og ágæt atvinnustarfsemi. Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar hf. var stofnuð árið 1981 og að henni stóðu alls 58 bændur í sveitinni, það er hinum gamla Djúpárhreppi. Í samræmi við stærð eignarhluta síns gátu bændurnir lagt þar inn afurðir sínar sem þótti ágætt fyrirkomulag.

Nasl og gratín

Í dag eru eigendurnir 28 en innleggjendurnir aðeins níu. Framleiðslan er seld undir vörumerkinu Þykkvabæjar og er unnið úr um 2.500 tonnum á ári. Starfsmenn verksmiðjunnar eystra, sem Auðun Gunnarsson stýrir, eru 14 og áttastarfa á skrifstofu og dreifingarstöð í Garðabæ.

Kartöflur eru hráefni verksmiðjunnar þaðan sem koma franskar, forsoðnar, gratín, nasl, kartöflumús og plokkfiskur í neytendaumbúðum.

„Flutningabílstjórinn kemur í bæinn þrisvar til fjórum sinnum í viku með fullfermi, vörur sem við dreifum í verslanir, veitingastaði og mötuneyti,“ segir Friðrik Magnússon framkvæmdastjóri. Hann segir talsverða samkeppni á kartöflumarkaði, mikið sé flutt til dæmis af nasli og frönskum. Þá séu kartöflur í mikilli samkeppni við aðrar kolefnisríkar vörur svo sem pasta og hrísgrjón.

Þjóðhátíðarrafmagn

Og svo eru það vindmyllurnar, sem verið er að reisa skammt fyrir ofan Þykkvabæjarþorp. Gert er ráð fyrir að þær verði farnar að snúast og framleiða rafmagn í öðru hvoru megin við þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Nú er verið að slá upp mótum fyrir steyptar undirstöður myllnanna tveggja sem eru 52 metrar á hæð. Við kjörskilyrði, það er vind sem er tólf m/sek., á að vera hægt að framleiða 1,2 MW, orku sem duga ætti 700-1.000 heimilum.

Fyrirtækið BioKraft ehf. stendur að myllunum og hefur verið samið við Orku náttúrunnar, framleiðslu- og sölufyrirfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, um orkukaup.