Ólafía Þorsteinsdóttir fæddist í Efri-Vatnahjáleigu í Austur-Landeyjum 9. nóvember 1933. Hún lést á Landakoti 8. maí 2014.

Foreldrar hennar voru Þorsteinn Ólafsson, f. 24. júní 1896, d. 13. apríl 1967, og Gíslný Jóhannsdóttir, f. 3 júlí 1911, d. 14 janúar 1993. Fósturforeldrar hennar voru Magnús Ólafsson, f. 15. mars 1889, d. 26. desember 1964, og Kristín Lilja Þorgeirsdóttir, f. 21. apríl 1898, d. 12. maí 1992.

Systkini Ólafíu: Jóhanna, f. 1930, d. 2000, Tryggvi, f. 1931, Trausti, f. 1935, Halla, f. 1936, Lilja, f. 1937, Reynir, f. 1938, Sólveig, f. 1940, Birgir, f. 1942, Guðrún, f. 1943, Jónína, f. 1944, Smári, f. 1946, Svanur, f.1947, Sigurvin, f. 1950, d. 1980, Vilborg, f. 1951 og Sigurbjörg, f. 1953.

30. júlí 1955 giftist Ólafía Guðna Ágústssyni, f. 4. maí 1928, d. 16. desember 2010. Foreldrar hans voru Ágúst Bjarnason, f. 5. ágúst 1893, d. 28. maí 1929, og Kristín Lilja Þorgeirsdóttir, f. 21. apríl 1898, d. 12. maí 1992. Fósturfaðir Guðna var Magnús Ólafsson, f. 15. mars 1889, d. 26. desember 1964.

Guðni og Ólafía eignuðust níu börn. 1) Magnús, f. 1954, unnusta Birte Nielsen, fyrrverandi sambýliskona Magnúsar, Ingunn Björnsdóttir, þeirra börn eru Guðmundur Friðrik og Nína María. 2) Þorsteinn, f. 1957, sambýliskona Ósk Árnadóttir. 3) Bjarni, f. 1958, maki Elínbjörg Kristjánsdóttir. 4) Kristín, f. 1960, fyrrverandi maki Kristínar, Þórarinn Þorláksson, þeirra börn eru Guðni Þór, í sambúð með Pernille Mott, sonur þeirra er Elías, Ólafur Ingi, Jónína Lilja, í sambúð með Sverri Fannbergssyni, Erna Karen, í sambúð með Árna Gunnari Ingþórsyni, þeirra börn eru Elísabet Lilja og Haukur Þór, Benedikt Árni. 5) Þórný, f. 1963, unnusti Lúðvík Helgason, maki Þórnýjar var Valdimar Árnason, d. 2000. 6) Ágúst, f. 1964, maki Drífa Dröfn Geirsdóttir, þeirra börn eru Súsanna Dögg, Viktor Elí og Gabríel Annas, fyrrverandi sambýliskona Ágústar, Brita Berglund, þeirra sonur er Aksel Freyr. 7) Gísli, f. 1968. 8) Halla, f. 1969, maki Borgþór Hjörvarsson, sonur Höllu og Árna Þórs Guðmundssonar er Stefán. 9) Þórdís, f. 1973.

Ólafía ólst upp frá sex ára aldri að Dufþaksholti í Hvolhreppi þar til hún stofnaði heimili. Hún gekk í barnaskóla í sinni heimasveit, síðan fór hún í Húsmæðraskólann að Laugarvatni. Ólafía og Guðni bjuggu í Lundi í Kópavogi frá 1955-1964 en þá fluttu þau til Víkur í Mýrdal en þaðan fluttu þau árið 1979 í Keilufell 20 og bjuggu þar alla tíð.

Útför Ólafíu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

„Ég er svo lífseig,“ sagði amma stundum glettnislega síðustu árin. Þar hitti hún sannarlega naglann á höfuðið eins og hennar var von og vísa. Í raun var ótrúlegt hve lengi hún lifði eftir að heilsan gaf sig. Hóstaköst þar sem hún missti andann voru m.a. algeng síðustu árin, en þau liðu ævinlega hjá. En allt tekur enda um síðir og eftir erfiða sjúkrahúsvist frá lokum síðasta árs kvaddi amma jarðlífið 8. maí.

Amma ólst upp í sveit á Suðurlandi og var hluti af sextán systkinahópi, hvorki meira né minna. Hún og hin eftirlifandi systkinin héldu eftirminnilega upp á samanlagt þúsund ára afmæli sitt í fyrra. Amma ólst þó ekki upp með þeim og foreldrunum í Eyjum, heldur hjá föðurbróður sínum og fjölskyldu hans í Rangárvallasýslu. Amma og afi komu upp stórri fjölskyldu og áttu níu börn. Amma var gríðarlega sterkur og litríkur karakter og hafði sín lífsgildi á hreinu. Fjölskyldan var alla tíð hennar ær og kýr og hún lagði mikið á sig fyrir hana. Hugsa þurfti vel um hverja krónu með stóran barnahóp og amma vildi aldrei henda mat, hún var einstaklega nýtin og nægjusöm. Snobb átti hún ekki til, auk þess að vera afar ósérhlífin og samviskusöm. Amma var hreinskilnasta manneskja sem ég hef kynnst og sagði ævinlega nákvæmlega það sem henni fannst, hún var ekki vön að skafa neitt af því. En hún gat líka verið ansi dómhörð og séð hlutina í svarthvítu ljósi.

Amma hafði einstakt lag á að segja frá og hún sagði frá gamalli tíð af mikilli list, af atburðum sem birtust manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum eins og maður væri á staðnum, svo myndrænar voru lýsingar hennar. Stundum sýndi hún líka leikræna tilburði í frásögnum sínum sem gæddu þær enn meira lífi. Hún var mikill húmoristi, oft bæði hnyttin og kaldhæðin. Ég man þegar amma leit í opna stærðfræðibók frá mér úr MR með sönnun og Q.e.d. í lokin og sagði: „Guð minn almáttugur, að þurfa að læra þetta! Það er eins gott að vera með höfuðið í lagi!“ Alltaf var manni vel tekið hjá ömmu og afa og það var mjög notalegt að renna við hjá þeim gömlu í kaffi og spjalla um daginn og veginn. Þar gat ég auðveldlega slakað á frá amstri hversdagsins. Amma var mikið náttúrubarn og sveitakona í sér og hafði sérstakt dálæti á að fylgjast með smáfuglunum. Minningar úr sveitinni voru henni hugleiknar undir það síðasta og hún spurði mig oft frétta af bændum fyrir norðan þegar ég fór til hennar á spítalann. Síðan ég var í menntaskóla hef ég litið á ömmu sem bæði mína helstu fyrirmynd og einn af mínum bestu vinum. Auk þess tel ég mig hafa lært margt af því hagnýtasta í lífinu af henni. Fáir hafa mótað líf mitt meira en „Ólamma“ eins og ég kallaði hana þegar ég var að læra að tala, því það var erfitt að læra að segja Ólafía, en hafðist þó að lokum.

Ég var viss um að ég væri að kveðja ömmu í hinsta sinn á Landakotsspítala 27. apríl, tveimur dögum áður en ég lagði upp í langferð, en þá rúllaði ég m.a. súrefniskútnum á eftir henni úr matsalnum inn í sjúkrastofuna. Takk fyrir allt, elsku amma. Hvíl í friði.

Guðmundur Friðrik.

Við systkinin viljum hér minnast systur okkar, Ólafíu, sem var þriðja elst af 16 börnum foreldra okkar.

Fjölskyldan flutti úr Landeyjum til Vestmannaeyja, þegar Ólafía var ung. Þegar hún var sex ára var hún send til sumardvalar að Dufþaksholti í Hvolhreppi til Magnúsar föðurbróður okkar og ílengdist hún þar. Eftir að skyldunámi lauk fór Ólafía í húsmæðraskólann að Laugarvatni. Hún giftist Guðna Ágústssyni og eignuðust þau níu börn. Þau hófu búskap í Kópavogi en bjuggu síðan mörg ár í Vík í Mýrdal. Seinna fluttu þau til Reykjavíkur.

Alltaf voru góð og náin samskipti milli Ólafíu, foreldra okkar og systkinanna. Hún var mikil hannyrðakona og einstaklega nýtin húsmóðir.

Ólafía var afskaplega góður starfskraftur, vel liðin af vinnuveitendum og samstarfsfólki. Hún var ávallt hreinskiptin og ákveðin og sagði alltaf sína meiningu. Síðustu árin glímdi hún við mikið heilsuleysi.

Viljum við systkinin þakka Ólafíu systur okkar fyrir ánægjulega samferð í lífinu.

Vottum við afkomendum Ólafíu og Guðna okkar innilegustu samúð við andlát hennar.

Systkinin.