Sigvaldi Hjartarson frá Neðri-Rauðsdal á Barðaströnd fæddist á Neðri-Vaðli á Barðaströnd 23. september 1928. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 6. maí 2014.

Foreldrar hans voru Hjörtur Lárusson, bóndi í Neðri-Rauðsdal, f. 6.8. 1894, d. 18.7. 1964, og Bjarnfríður Jóna Bjarnadóttir, f. 1.12. 1892, d. 4.2. 1979. Systkini Sigvalda eru Sigrún Lilja, f. 17.5. 1915, d. 7.3. 1999, Halldóra, f. 7.10. 1916, d. 26.12. 2010, Fanney, f. 18.2. 1919, d. 17.9. 2012, Sigríður, f. 6.8. 1921, d. 12.12. 1987, Jónína, f. 3.12. 1923, Inga, f. 19.1. 1925, d. 2.4. 2008, Reynir, f. 30.7. 1926, d. 7.1. 2009, Lára, f. 24.4. 1930, Kristjana, f. 16.7. 1931, Björg Hákonía, f. 8.3. 1937, d. 6.5. 2012.

Eftirlifandi eiginkona Sigvalda er Kristbjörg Ólafsdóttir, f. 20.5. 1932. Þau gengu í hjónaband 24. desember 1951. Foreldrar hennar voru Ólafur Guðmundsson, f. 25.5. 1889, d. 12.5. 1974 og Elísabet Sigríður Guðjónsdóttir, f. 18.6. 1892, d. 7.12. 1936. Kristbjörg átti fimm systkini og er hún ein eftirlifandi af þeim.

Sigvaldi og Kristbjörg eignuðust þrjú börn. Þau eru Hjördís Jóna Sigvaldadóttir, f. 3.8. 1952, gift Hjalta Má Hjaltasyni, f. 18.5. 1949. Börn þeirra eru a) Anna, f. 1971, í sambúð með Ágústi Jóhannessyni og á hún eina dóttur. b) Kristbjörg, f. 1974, gift Kristjáni Geir Gunnarsyni og eiga þau þrjú börn. c) Jenný Lind, f. 1979, gift Pálma Jónssyni og eiga þau þrjú börn. Grétar Jóhannes Sigvaldason, f. 1.3. 1955, giftur Róslindu Jenný Sancir, f. 17.5. 1956. Börn þeirra eru a) Pétur Reynir, f. 1973, í sambúð með Sigrúnu Áslaugu Guðmundsdóttur og eiga þau þrjú börn. b) Sigvaldi, f. 1979, giftur Elsu Blöndal Sigfúsdóttur og eiga þau tvö börn. c) Jóna Dís, f. 1982, í sambúð með Sverri Jóhanni Jóhannssyni og eiga þau tvö börn. Hjörtur Sigvaldason, f. 19.3. 1964 giftur Sigrúnu Stefánsdóttur, f. 19.1. 1965. Börn þeirra eru a) Stefán, f. 1987. b) Andri, f. 1992. c) Sveinrún, f. 1997. Einnig eignaðist Sigvaldi dótturina Bergljótu, f. 1.11. 1954, gift Þorleifi J. Hallgrímssyni, f. 25.4. 1953. Börn þeirra eru a) Hallgrímur Magnús, f. 1973, í sambúð með Jónu Margréti Jóhannsdóttur og eiga þau tvö börn. b) Kristín Hildur, f. 1975, í sambúð með Kristmundi E. Arnbjörnssyni og eiga þau fimm börn. c) Gunnar Sveinn, f. 1981, í sambúð með Auði Ósk Eymundsdóttur og eiga þau eitt barn. d) Bergþór, f. 1989.

Sigvaldi ólst upp í stórum systkinahópi, fyrst að Neðra-Vaðli og síðar í Neðri-Rauðsdal á Barðaströnd þar sem hann kynntist þeim bústörfum sem tíðkuðust á þeim tíma. Hann flutti síðan til Reykjavíkur 18 ára að aldri. Sigvaldi starfaði við ýmislegt en lengsta hluta starfsævi sinnar starfaði hann hjá Landsmiðjunni þar til hann hætti störfum vegna veikinda sinna. Hans aðaláhugamál voru kindur, hestar, fuglar og blómarækt og var hann mjög fróður um allt það sem sneri að þessu áhugamáli hans. Hann var lengi með kindur og hesta í Fjárborg í Reykjavík þar sem hann sinnti félagsmálum og var um tíma formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur.

Útför Sigvalda fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Þar sem ég sit hér og rita minningargrein um tengdaföður minn, sem ég kynntist fyrir 34 árum, þá aðeins 15 ára gömul, þá koma margar minningar upp í hugann. Alls konar minningar, góðar, spaugilegar, sorglegar og margar þeirra eru um þessa litlu hversdaglegu hluti, en það eru einmitt þessar mismunandi minningar sem ég geymi um tengdaföður minn sem eru mér svo kærar. Sigvaldi ræðandi um heima og geima við eldhúsborðið, þess á milli sem hann hvarf inn í pípureykinn. Í minningunni var hann alltaf að skipuleggja og framkvæma. Ef hann var ekki uppi í fjárhúsi, þá var hann að dytta að húsinu, í garðinum eða uppi í sumarbústað. Alltaf að skipuleggja hvað hann gæti gert næst. Blómarækt og garðvinna var hans helsta áhugamál. Eitt sinn var hann smeykur um að það væri of kalt fyrir græðlingana í gróðurkassanum, þannig hann greip til sinna ráða og tók hárþurrkuna frá frúnni og setti hana í gróðurkassann. Beru holti í kringum sumarbústaðinn var breytt í skóg á undraskömmum tíma. Eftir að þau hjónin fluttu í Mörkina og hann var ekki með garð lengur þá fann hann auðan blett og bjó sér til kartöflugarð. Það var honum alveg ómögulegt að hætta þrátt fyrir hrakandi heilsu.

Sigvaldi var einstaklega barngóður og nutu börnin mín þess svo sannarlega. Alltaf tími til að spjalla, segja sögur, fræða og kenna þeim vísur. Það eru ekki margir krakkar í dag sem áttu afa sem ólst upp í torfbæ og var sendur út 12 ára gamall með byssu til að skjóta fugl eða sel til matar. Börnunum mínum fannst óendanlega gaman að hlusta á afa sinn segja frá hvernig lífið var hér áður fyrr og eru fyrir vikið margs fróðari um fyrri tíma. Þetta eru minningar sem eru þeim dýrmætar og tala um sín á milli. Ég man sérstaklega eftir að honum fannst, eitt sinn að Andri, yngri sonur minn, væri eitthvað ósáttur við að vera hjá dagmömmu, þannig að Sigvaldi tók að sér að vera „dagmamma“ á tímabili og sonur minn alsæll að fá að vera hjá afa allan daginn. Það eru þessar minningar sem ég hef um Sigvalda sem gera mig þakkláta að hafa kynnst þessum góða manni, sem var mér alltaf svo góður. Blessuð sé minning hans.

Þín tengdadóttir,

Sigrún Stefánsdóttir.

Elsku yndislegi afi okkar, okkur systur langar til að minnast þín með nokkrum orðum. Fyrstu minningar okkar eru frá því við vorum litlar þegar við sátum í fanginu þínu og þú söngst fyrir okkur, fórst með vísur og gátur. Við eigum einnig margar minningar með þér í hesthúsunum eins og þegar við komum inn á kaffistofu með kalda fingur og þú beiðst eftir okkur til að nudda lífi aftur í fingurna, vafðir okkur inn í teppi og gafst okkur heitt kakó. Kaldir fingur, hlýtt hjarta varstu vanur að segja við okkur.

Eftir að við stækkuðum og eignuðumst okkar börn þá áttu þau líka alltaf pláss í faðminum þínum. Þú varst einstaklega barngóður og sóttu börnin í að vera hjá þér.

Þú varst ótrúlega kraftmikill maður og lést ekkert aftra þér í þeim verkefnum sem þér datt í hug að taka þér fyrir hendur. Þú varst mikið náttúrubarn, bjóst yfir ótrúlega miklum fróðleik um náttúru og dýr og ekki má gleyma hvað þú hafðir græna fingur. Allt virtist vaxa í höndunum á þér. Það er ógleymanlegt hvernig þú plantaðir heilum skógi í kringum bústaðinn ykkar og annaðist hann þrátt fyrir að hafa mjög dapra sjón seinustu árin. Sumarbústaðurinn var til margra ára annað heimili ykkar ömmu og þangað var alltaf gott að koma.

Við munum aldrei gleyma því hversu hlý og innileg faðmlögin þín voru og hversu hlýr og góður afi þú varst okkur. Minning okkar um yndislegan afa mun alltaf lifa í hjörtum okkar og þökkum við fyrir að hafa notið þessa tíma með þér.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku afi, hvíl þú í friði.

Þínar,

Anna, Kristbjörg og Jenný Lind.

Ég kynntist Sigvalda fyrst þegar ég var að sniglast í kringum dóttur hans Hjördísi, um 1971, en þá voru þau Kristbjörg kona hans búsett inni í Blesugróf, nánar tiltekið D-götu 5, það hús byggðu þau sjálf með mikilli eljusemi og dugnaði, en af því áttu þau hjónin nóg af, það hús varð síðan að víkja vegna skipulagsbreytinga. „Þá er bara að byggja nýtt hús,“ sagði Sigvaldi og fékk okkur, mig og syni sína, til liðs við sig. Nýja húsið var svo reist á mettíma eins og honum var lagið og fluttu þau inn í það 1978 eða einu og hálfu ári eftir að byggingin hófst. Sigvaldi stóð þá á fimmtugu.

Það fór sem sagt ágætlega á með okkur Sigvalda tengdaföður mínum strax í byrjun og þegar hann lenti inni á spítala með krabbamein í maga 1971 treysti hann mér meðal annars til að fóðra hænurnar sínar en hann var þá með hænsnarækt í Hlíð við Elliðaár. Einnig var hann fjárbóndi og var með ærnar sínar í Fjárborg í Reykjavík. Minnisstæðar eru mér skemmtilegu hestaferðirnar vestur í Dalasýslu svo ekki sé nú talað um er við fórum að smala forðum. Sigvaldi var mikill dugnaðarkarl og ósérhlífinn, hann þoldi illa mikið hangs og það sem hann vildi gera varð að gerast núna. Það er nægur tími til að hvílast síðar var hann vanur að segja. Sigvaldi barðist hatrammlega við veikindi af ýmsum toga allan seinni hluta ævi sinnar og sigraði í öllum þeim orrustum en enginn getur þó unnið lokastríðið og lést Sigvaldi að kvöldi 6. maí sl. á Landspítala Fossvogi.

Elsku tengdafaðir, nú hefur þú fengið hina langþráðu hvíld en minningin um dugmikinn og úrræðagóðan mann lifir.

Elsku tengdamamma, ég votta þér alla mína samúð og megi Guð styrkja þig og blessa í sorg þinni.

Þó lífs þíns erli ljúki hér

og leggist yfir skuggar.

Í andans nauð þá opnast þér

allir ljóssins gluggar.

Þá fellur þú í faðminn manns

er friðsemd alla gefur

og yrkir aldingarðinn hans

þá Akurliljan sefur.

( Hjalti Már )

Þinn tengdasonur,

Hjalti Már.

Elskulegur tengdapabbi minn.

Með þakklæti í huga fyrir ómetanlegar minningar sem við eigum eftir 40 ára kynni okkar er mér efst í huga þegar ég hitti þig fyrst en þá var ég á leið í bíó með Jóa og við nýbúin að kynnast en hann þurfti aðeins að koma við heima og stökk þar aðeins inn. Ég hafði setið augnablik í bílnum þegar ég sé mann koma gangandi frá húsinu á nærbolnum í átt að bílnum og var mér frekar brugðið þegar hann vippar upp hurðinni, en þú bara kynntir þig og bauðst mér inn í kaffi.

Eins á ég margar góðar minningar af samveru okkar uppi í bústað þar sem þú varst alltaf duglegur að gróðursetja enda maður með einstaklega græna fingur.

Fjárborg er staður sem situr efst í mínum huga sem hamingjustaðurinn þinn, þar leið þér svo vel í kringum kindur og hesta og þótti þér einstaklega skemmtilegt að fá barnabörnin í heimsókn til þín þangað, vegna þessara heimsókna þeirra kom nafni þinn því inn hjá leikskólanum sínum að leikskólabörnin færu í heimsókn í Fjárborg að sjá sauðburðinn, við mikla lukku allra.

Svona gætu minningar um þig auðveldlega fyllt heila bók, svo margar og góðar eru minningarnar.

Með ósk um að nú hvílist þú í friði, elsku Sigvaldi minn.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Þín tengdadóttir,

Róslinda.

Elsku afi, tengdaafi og langafi okkar.

Það er frekar óraunverulegt að kveðja þig núna þar sem þú hefur einhvern veginn staðið allt af þér, alveg sama hvað hefur komið uppá, fyrir okkur varstu einhvern veginn bara eilífur en huggun er að vita að nú hvílist þú í friði á betri stað umvafinn blómum án efa.

Eitt af þínum sterkustu hliðum er að þú hefur án efa verið einn besti hlustandi í lífi okkar hvort sem það kom að því að ráðleggja Sigvalda og Pétri um veiði eða Jónu Dís um gróðursetningar eða bara lífsins þrautir almennt. Eins sýndir þú alltaf lífi okkar öllu svo mikinn áhuga.

Fang þitt er líka eitthvað sem öll börnin okkar sóttu í þar sem svo gott var að setjast og hlusta og raula með þér og hafa þau öll setið og raulað hin ýmsu lög svo tímunum skipti eins áttir þú alltaf eitthvað kex eða mola sem gott var að fá í horninu þínu.

Að hlusta á þig tala um gamla tíma og reynslu þína í gegnum tíðina var og verður ómetanleg minning og fróðleikur sem mun alltaf fylgja okkur. Öll höfum við sótt í að koma og hlusta og ræða öll heimsins mál þar sem alltaf stóðu opnar dyr og unun að vera hjá og njóta.

Þegar við vorum yngri þá ætlaði Sigvaldi t.d. bara að búa hjá ykkur því hvergi var betra að vera en hjá afa og ömmu. Ýmislegt hefur þú kennt okkur og er erfitt að nefna bara nokkra hluti, því svo fróður og lífsreyndur varstu.

Elskulegur, gjafmildur, glaður, hjálpsamur, hlýr, grænir fingur, stórt hjarta, þolinmæði, sterkur, eilífur, þrjóskur og svona getum við haldið endalaust áfram.

Loks beygði þreytan þína dáð,

hið þýða fjör og augnaráð;

sú þraut var hörð – en hljóður nú

í hinsta draumi brosir þú.

(Jóhannes úr Kötlum)

Með endalaust þakklæti í huga munum við varðveita minningarnar okkar og minnast þín að eilífu.

Pétur, Sigvaldi, Jóna Dís, makar og börn.

Með örfáum orðum ætla ég að kveðja þig kæri vinur og frændi.

Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar þú varst ungur maður en ég var lítill strákur, allar götur síðan höfum við verið í góðu sambandi, verið saman í hesthúsi til margra ára, ferðast saman á hestum og það eru algjörlega ógleymanlegar stundir, þú kenndir mér nöfn á blómum, fuglum og sagðir mér sögur frá þeim stöðum sem við fórum um. Vísurnar sem þú fórst með fyrir mig og kenndir hæfa engan veginn hér en eiga eftir að minna mig á þig um ókomna tíð.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Þorvarður Helgason.

HINSTA KVEÐJA
Elsku pabbi, allar góðar minningar geymi ég í hjarta mér um ókomna tíð.
Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,
þótt duni foss í gljúfrasal,
í hreiðrum fuglar hvíla rótt,
þeir hafa boðið góða nótt.

Nú saman leggja blómin blöð,
er breiddu faðm mót sólu glöð,
í brekkum fjalla hvíla hljótt,
þau hafa boðið góða nótt.

Nú hverfur sól við segulskaut
og signir geisli hæð og laut,
en aftanskinið hverfur fljótt,
það hefur boðið góða nótt.
(Magnús Gíslason.)
Þín dóttir,
Hjördís Jóna.