Sao Paulo. AFP | Víðtæk mótmæli fóru fram í Brasilíu í gær og vildu þátttakendur lýsa yfir óánægju sinni með há útgjöld vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, sem hefst 12. júní. Sögðu fréttaskýrendur að mótmælin væru prófsteinn á öryggisviðbúnað fyrir mótið.
Yfirstandandi verkföll lögreglu og kennara og hótun um verkfall alríkislögreglunnar hafa valdið áhyggjum um að Brasilíumenn muni ekki ráða við að halda HM.
5.000 félagar í Hreyfingu heimilislausra verkamanna gengu í gær að leikvangi liðsins Corinthians í Sao Paulo þar sem fyrsti leikur mótsins milli Brasilíu og Króatíu fer fram og kveiktu í hjólbörðum.
Brasilía hefur varið rúmlega 11 milljörðum dollara (tæplega 1.250 milljörðum króna) í undirbúning fyrir mótið. Mótmælendur segja að því fé hefði verið betur varið í að bæta grunnþjónustu á borð við almenningssamgöngur, menntun, húsnæðismál og heilbrigðisþjónustu.
Mótmælin í Sao Paulo í gær tepptu umferð og náðu bílaraðir allt að 150 km.
Hreyfingar mótmælenda höfðu boðað til 50 mótmæla í 10 af þeim 12 borgum þar sem leikirnir fara fram.
Alríkislögreglan sér um landamæraeftirlit og vegabréfaskoðun. Verkfall hennar skylli á um leið og búist er við 600 þúsund gestum á HM.