Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Áformað er að veiðigjöld skili ríkissjóði átta milljörðum í ár, eða svipað miklu og í fyrra, þótt gjöldin lækki. Skýrist það einkum af auknum tekjum af loðnuafla.

Áformað er að veiðigjöld skili ríkissjóði átta milljörðum í ár, eða svipað miklu og í fyrra, þótt gjöldin lækki. Skýrist það einkum af auknum tekjum af loðnuafla. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segir að lækkun sérstaks veiðigjalds dreifist nokkuð jafnt á allar tegundir. Afkomustuðlar hafa verið uppfærðir.

„Stuðlarnir í veiðigjaldafrumvarpinu miðuðust allir við afkomu útgerðarinnar á árinu 2012. Við óskuðum eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að hún yfirfæri stöðuna hjá útgerðum árið 2013. Stofnunin skoðaði ársreikninga útgerðarfyrirtækja af ólíkri stærð.“

Framlegðin minnkar mikið

Jón segir lækkandi afurðaverð og styrkingu krónu hafa hér áhrif.

„Árið 2012 var það besta í íslenskum sjávarútvegi. Rannsóknin sýndi að það er nú að jafnaði 20-25% minni framlegð af sjávarútvegi milli áranna 2012 og 2013. Það er grundvöllur þess að við endurreiknum álagningu. Gjöldin lækka um rúman milljarð, miðað við áætlun í frumvarpinu.“

Jón segir áætlaðan loðnuafla hafa verið hækkaðan úr 200.000 tonnum í 360.000 tonn, að áætluð aukning þorskafla hafi verið hækkuð úr 20.000 í 30.000 tonn og að áætlun fyrir makríl sé 6.000-7.000 tonnum meiri.

Að sögn Jóns skila 100.000 tonn í aukinni loðnuveiði ríkissjóði um 500 milljónum króna í aukin veiðigjöld. Þá er sú breyting gerð að aflaheimildir rækju fara nú til helminga til þeirra sem áttu veiðiheimildir og þeirra sem hafa aflað sér veiðireynslu á síðustu þremur árum. Voru hlutföllin áður 70/30, þeim sem áttu veiðiheimildir í vil. Jón væntir þess að frumvarpið verði afgreitt fyrir þinglok. baldura@mbl.is