Árni segir Stangaveiðifélag Reykjavíkur, Reykjavíkurborg og Orkuveituna eiga í nánu og góðu samstarfi um uppbyggingu og ásýnd veiðisvæðisins í kringum Elliðaár og Elliðavatn.

Árni segir Stangaveiðifélag Reykjavíkur, Reykjavíkurborg og Orkuveituna eiga í nánu og góðu samstarfi um uppbyggingu og ásýnd veiðisvæðisins í kringum Elliðaár og Elliðavatn. Um einstakt svæði sé að ræða í hjarta borgarinnar og hvergi annars staðar sé hægt að finna laxveiðiá í þessum gæðaflokki sem renni gegnum miðja borg. „Elliðaárdalur er sannkölluð perla sem Reykvíkingar mega vera stoltir af,“ segir hann.

Að veiða í Elliðavatni þykir líka skemmtileg áskorun fyrir veiðimanninn. Kannski eru það vinsældir þessa veiðisvæðis sem hafa kennt fiskinum að fara varlega: „Menn vilja meina að fiskurinn í Elliðavatni sé mjög vandfýsinn á agn og flugur. Veiðimenn þurfa að haga sér rétt til að komast í tæri við hann og þeir sem náð hafa góðum tökum á veiðum í Elliðavatni þykja miklir sérfræðingar. Fyrir vikið er Elliðavatn oft kallað háskóli fluguveiðimannsins.“