Gaman Goodman-fjölskyldan breska er bráðfyndin.
Gaman Goodman-fjölskyldan breska er bráðfyndin.
Sjónvarpsþættir um hrekkjótta, kaldhæðna og húðlata bræður á þrítugsaldri, sem koma í vikulegan kvöldverð á heimili foreldra sinna, hafa haldið fjölskyldu í uppsveitum Kópavogs fanginni við skjáinn á miðvikudagskvöldum undanfarnar vikur.

Sjónvarpsþættir um hrekkjótta, kaldhæðna og húðlata bræður á þrítugsaldri, sem koma í vikulegan kvöldverð á heimili foreldra sinna, hafa haldið fjölskyldu í uppsveitum Kópavogs fanginni við skjáinn á miðvikudagskvöldum undanfarnar vikur. Uppátækjum Goodman-bræðranna í bresku gamanþáttunum Í mat hjá mömmu virðast fá takmörk sett þegar kemur að því að gera hvor öðrum meinlegar skráveifur. Þá er pabbinn kapítuli út af fyrir sig; yfirleitt ekki klæddur í meira en eina flík í einu og þurrkar harðfisk inni í húsinu. Þegar við bætist sá algalnasti nágranni sem hægt er að ímynda sér, tvær skrautlegar ömmur og úrvalsleikarar í hverju hlutverki er kominn einn þéttasti grínpakki sem sést hefur á skjánum um langt skeið. Við kvað grátur og gnístran tanna á heimili Ljósvakaskrifara í síðustu viku þegar upp rann fyrir heimilisfólki að þá hefði sýningu þáttaraðar númer tvö á RÚV lokið. Ögn léttist þó brúnin þegar þær spurnir bárust að búið væri að framleiða þá þriðju sem verður sýnd í Bretlandi í sumar. Og þá verður líka strax hægt að horfa á þá heima í stofu, þökk sé tækninni.

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir