Unnur Áslaug Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1916. Hún lést á Droplaugarstöðum 7. maí 2014.

Foreldrar hennar voru Jón Sigmundsson, gullsmiður, Laugavegi 8, í Reykjavík, og kona hans, Ragnhildur Sigurðardóttir. Systkini Unnar voru: Ragnar, f. 1905, d. 1983. Þórdís, f. 1907, d. 1986. Sigríður, f. 1908, d. 1998. Fjóla, f. 1917, d. 1986.

Unnur giftist 1945 Finnboga Kjartanssyni, f. 1910, d. 1964. Þau skildu. Barn þeirra: Þröstur Finnbogason, f. 1951, læknir í Svíþjóð. Eiginkona hans: Marie Finnbogason (f. Olsson) frá Järvsjö, Svíþjóð. Þau eiga tvö börn, Daniel Martin, f. 1987, og Hanna Kristín, f. 1989, bæði háskólanemar í Uppsölum, Svíþjóð.

Unnur ólst upp í Reykjavík. Útskrifaðist frá Kvennaskólanum 1934. Starfaði hjá Tollstjóraembættinu, var verslunarstjóri í Skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar, skrifstofumaður hjá Gjaldheimtunni og síðast í iðnaðarráðuneytinu þar til hún fór á eftirlaun 70 ára 1986. Þá stundaði hún sjálfboðastarf á vegum Rauða krossins á bókasafni Landspítalans.

Útför Unnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. maí 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Í síðustu viku kvaddi sérlega kær vinkona mín og frænka. Unna frænka eins og við kölluðum hana jafnan, en hún náði 97 árum og rétt tæplega níu mánuðum betur. Unna frænka var systir ömmu minnar, hennar Þórdísar Toddu. Ég kynntist Unnu í raun ekki almennilega fyrr en eftir 1986 þegar amma mín dó.

Hún Unna mín var mjög sátt að fá að fara, fannst þetta vera orðinn fulllangur tími enda allir farnir að hennar sögn. Í mörg ár hélt hún árlegt jólaboð annan í jólum. Þetta var kaffiboð, með öllum þeim tertum og gúmmelaði sem fylgir slíkum boðum og ekta heitt súkkulaði fyrir þá sem það vildu. Ekki kakó, heldur súkkulaði, þetta skipti miklu máli enda var um eðaldrykk að ræða.

Unnuboðin voru svo fastur liður í jólahátíðinni að þegar hún hætti að halda boðin sökum heilsuleysis myndaðist pínulítið gat. Hvað áttum við nú að gera? Unna missti því miður sjónina þegar hún var komin á efri ár og það var henni mjög þungbært. Enda sagðist hún geta gert allt sem hún vildi ef hún bara hefði smásjón.

Hún myndi kaupa sér tölvu og fara á facebook sem allir voru alltaf að tala um.

Þessi dásamlega frænka mín var sérlega skemmtileg kona með miklar skoðanir, frábæran húmor og einstakt minni. Hún lét mig iðulega heyra hversu illa borgin var rekin eftir að Davíð Oddsson hætti þar og hvað vinstristjórnin væri á villigötum.

Fyrir átta árum fór hún á Droplaugarstaði. Það var gott að heimsækja hana þangað, við sátum og spjölluðum yfir sérríglasi og konfektáti og hlógum mikið. Ég beindi ferðum mínum gjarnan til hennar þegar mér leið vel og líka þegar ég var illa upplögð. Það var voðalega notalegt að sjá Unnu með nýlagt hárið, fagurbleikar neglurnar og flottan bleikan varalit sitjandi á rúminu að hlusta á góða sögu. Það hnussaði í henni ef ég fór eitthvað að kvarta enda hætti ég öllu slíku strax. Þessar heimsóknir gáfu mér mikið, stundum lá illa á henni og þá gat ég launað henni með að hlusta og vera til staðar eins og hún var fyrir mig. Eitt skiptið spurði hún mig hvort ég vildi ekki skrifa niður minningar um fjölskylduna okkar, langafa minn og langömmu og hvernig lífið var hér áður fyrr á meðan hún myndi hlutina, ég hefði betur farið eftir þeim ráðum, því hún hafði náð að lifa tvær heimsstyrjaldir og hún mundi vel eftir þegar herinn birtist hér á landi. En ég skrifaði ekkert. Ég tel mig vera afskaplega heppna manneskju, ég á mikið af góðum vinum og svo á ég svo dásamlega fjölskyldu. Fólkið í kringum mig bæði sem ég hef valið og það sem er blóðskylt mér er bæði fyndið, notalegt, traust, skemmtilegt, hlustar (stundum) og kemur óafvitandi með góð ráð.

Elsku Unna mín, ég lyfti hér dýrindis kirsuberjavínglasi, ég drekk úr fallega kristalnum hennar ömmu um leið og ég kveð þig og þakka þér fyrir vináttuna og yndislegu stundirnar okkar.

Þín

Linda Björk.

Unnur Áslaug móðursystir okkar er fallin frá. Hún lést í hárri elli, 97 ára að aldri. Það verða viðbrigði fyrir okkur systur að hætta að heimsækja hana á Droplaugarstaði.

Þá er síðasta barn Jóns Sigmundssonar (1875-1942) gullsmiðs, og Ragnhildar Sigurðardóttur (1880-1958), fallið frá.

Unnur var mjög glæsileg kona, alltaf vel tilhöfð, einnig var hún afskaplega skýr í hugsun og minnug til hins síðasta dags.

Hún sætti sig illa við að vera blind og talaði mikið um hvað hún myndi hafa gert ef hún hefði sjón. Hún myndi t.d. tala við barnabörnin sem búsett eru í Stokkhólmi á Skype og fylgjast með á Facebook. Hún var líka mikið fyrir alls kyns krossgátur og hugarleikfimi. Einnig var hún vel lesin og mikill bókmenntaunnandi.

Unnur var mjög fjölskyldurækin. Hélt jólaboð fyrir fjölskylduna á hverju ári. Hún vandaði vel til verka og bakaði alls kyns kræsingar sem verða lengi í minnum hafðar. Eftir að hún fór að missa sjónina þurfti hún aðstoð við að skilja eggin. Þrjósk var hún og dugleg að bjarga sér þrátt fyrir sjónarmissinn. Hún hélt að hún gæti búið ein heima því hún rataði svo vel um íbúðina sína. Það var erfitt að sannfæra hana um að það væri beinlínis hættulegt fyrir blinda manneskju á níræðisaldri að búa ein. Hún hafði góða kímnigáfu og var vel viðræðuhæf til hins síðasta.

Hún ljómaði þegar hún talaði um gamla daga, þegar hún var ung og dansaði á Borginni, þegar hún ferðaðist til Þýskalands fyrir stríð með vinkonu sinni til Ítalíu kringum 1960. Um Bandaríkin með syni sínum 1971.

Margar heimsóknir til Bergen þar sem Fjóla bjó. Henni þótti mjög gaman að ferðast. Meðan hún gat keyrt bíl var hún dugleg að keyra móður okkar sem hafði ekki bílpróf. Verst þótti henni þegar fækkaði í vinahópi hennar og fjölskyldu.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Kveðja frá

Emmu og Áslaugu.

Í dag kveðjum við Unni Áslaugu Jónsdóttur hinstu kveðju. Unnur hefur fengið hvíldina, sem hún var farin að bíða eftir, 97 ára gömul. Unnur Áslaug fæddist og ólst upp í miðbæ Reykjavíkur á millistríðsárunum. Foreldrar hennar ráku skartgripaverslun og verkstæði við Laugaveg og var hann leikvangur Unnar, systkina hennar og annarra leikfélaga fyrstu árin. Laugavegurinn var ólíkur þeim Laugavegi sem nú er. Fáir bílar, lítið malbik, hestvagnar. Í þessu umhverfi hóf Unnur Áslaug vegferð sína.

Unnur og hennar ferðafélagar á lífsgöngunni, sem náð hafa háum aldri, upplifðu ótrúlegar tækniframfarir alla síðustu öld og fram á þennan dag. Hafði hún oft orð á því og fylgdist mjög vel með öllu, fram á síðasta dag.

Hún var dugleg að minna okkur sem yngri eru á, að nota tækifærin rétt og minnti okkur vel á, að flest allt í þessum heimi væri hverfult.

Unnur útskrifaðist frá Kvennaskólanum við Tjörnina 1934. Fannst henni alltaf að vera sín þar hefði verið gott veganesti út í lífið. Miðbær Reykjavíkur var hennar starfsvettvangur alla tíð. Í iðnaðarráðuneytinu vann hún við ritarastörf í tæpa tvo áratugi. En þekktust var hún bæjarbúum sem Unna á Laugavegi 8.

Ég kynntist Unni Áslaugu þegar ég giftist Erni, systursyni hennar. Þá strax fann ég vinsemd og væntumþykju hjá henni í minn garð, sem ég er þakklát fyrir. Unnur Áslaug var mikill fagurkeri og má segja, að gull- og silfurhlutir hafi verið svolítið í uppáhaldi hjá henni, enda var hún lengi verslunarstjóri í skartgripaverslun foreldra sinna á Laugavegi 8. Skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar er enn í fullum rekstri á Laugaveginum eftir rúm eitt hundrað ár, rekin af bróðursyni Unnar. Einkunnarorð skartgripaverslunarinnar voru þegar Unnur starfaði þar og eru reyndar enn: „Fagur gripur er æ til yndis.“

Segja má að vegferð Unnar og atgervi á lífsgöngu hennar eigi beina skírskotun til þessara fallegu orða.

Að leiðarlokum kveð ég góða konu með söknuði og þakklæti.

Við í fjölskyldunni sendum Þresti, Marine, Hönnu og Daníel samúðarkveðjur.

Hjördís Ragnarsdóttir.

Elsku Unnur mín, þá er kveðjustundin komin og þú búin að fá ósk þína uppfyllta að kveðja þetta líf enda aldurinn orðin hár og heilsan léleg, sjón og bragðskyn farið, en alltaf voru súkkulaðimolarnir svo góðir, þú bara vissir það. Elsku Unnur, við erum búnar að eiga langa samleið sem spannar heil 25 ár.

Ég byrjaði hjá þér í heimaþjónustu, þrífa, fara með þér niður í Blindrafélag í opið hús og hitta alla vini þína þar, þangað fórum við alltaf einu sinni í viku, svo fórum við í Kringluna, versluðum og fengum okkur kaffi, stundum fórum við líka niður í bæ á Café Paris og fengum okkur swissmokka og pönnsur. Svo lá leiðin á Droplaugarstaði því þú gast ekki verið lengur heima útaf stigunum og þar ertu búin að vera í sjö ár síðan í mars, þú varst einmitt að tala um það fyrir svona mánuði að þetta væru orðin sjö ár: Ég kom alltaf til þín í hverri viku á miðvikudegi, en nú eru allir miðvikudagarnir okkar búnir, aldrei fer ég oftar á Dropann að heimsækja þig, en síðasta miðvikudag kvaddir þú mig þegar ég hélt í hönd þína í síðasta skipti og talaði við þig um allan okkar tíma sem við erum búnar að vera vinkonur, þá fannst mér þú brosa um leið og þú kvaddir eins og þú vissir af mér þarna. Mikið á ég eftir að sakna þín, Unnur mín. Góða ferð inn í sumarlandið, kæra vinkona.

Elsku Þröstur, Áslaug, Halldór, Emma, Linda, fjölskyldur ykkar og aðrir ættingjar, ég votta mína innilegustu samúð.

Guðrún M. ( Gunna).