Aurum-málið Lögmenn ræða saman í héraðsdómi í gær. Sérstakur saksóknari fer fram á sex ára og fjögurra ára fangelsi yfir sakborningum.
Aurum-málið Lögmenn ræða saman í héraðsdómi í gær. Sérstakur saksóknari fer fram á sex ára og fjögurra ára fangelsi yfir sakborningum. — Morgunblaðið/Golli
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Þegar FL Group hafði tryggt sér yfirráð yfir Glitni í lok aprílmánaðar árið 2007 tæplega tvöfölduðust útlán bankans til Baugshópsins, en sem dæmi fóru útlánin til Baugs og FL Group yfir 40% af eiginfjárgrunni bankans.

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Þegar FL Group hafði tryggt sér yfirráð yfir Glitni í lok aprílmánaðar árið 2007 tæplega tvöfölduðust útlán bankans til Baugshópsins, en sem dæmi fóru útlánin til Baugs og FL Group yfir 40% af eiginfjárgrunni bankans. Þetta sagði Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, við aðalmeðferð í Aurum-málinu svonefnda í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Vísaði hann þar til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna haustið 2008. Hann sagði málið eiga sér fá fordæmi hér á landi þegar kæmi að efnahagsbrotum. Málflutningi lýkur í dag. Málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu Glitnis banka til félagsins FS38 ehf. í júlímánuði árið 2008. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 á 25,7% hlut í Fons, eignarhaldsfélagi Pálma Haraldssonar, í Aurum Holdings Limited og eru þeim Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einum aðaleiganda bankans, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, og Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis, gefin að sök umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum vegna lánveitingarinnar. Saksóknari sagði einnig að útlán bankans til eignarhaldsfélagsins Fons, sem Pálmi Haraldsson fór fyrir, hefðu aukist verulega eftir að skipt var um forstjóra í Glitni. Reyndar hefðu útlán bankans til Baugshópsins svokallaða tvöfaldast.

Inn á persónulegan reikning

Í munnlegum málflutningi sérstaks saksóknara kom fram að Jón Ásgeir hefði, í gegnum félög sem hann, fjölskylda hans og viðskiptafélagar áttu meirihluta í og stjórnuðu, ráðið yfir 40% af hlutafé Glitnis. Honum hefði ekki getað dulist að með sex milljarða fjárveitingunni væru þeir Lárus og Magnús Arnar að misnota stöðu sína og valda bankanum verulegri fjártjónshættu.

Einn milljarður af upphæðinni hefði farið inn á persónulegan reikning Jóns Ásgeirs sem hann hefði nýtt í eigin þágu, meðal annars til að greiða um 705 milljóna króna yfirdráttarskuld sína hjá Glitni.

Farið er fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi og fjögurra ára fangelsi yfir Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari og Bjarna.