Geimskot Vísindamennirnir lyfta Dragon-eldflauginni í skotstöðu á Mýrdalssandi í ágúst árið 1964.
Geimskot Vísindamennirnir lyfta Dragon-eldflauginni í skotstöðu á Mýrdalssandi í ágúst árið 1964. — Ljósmynd/Ágúst H. Bjarnason
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Mýrdalssandur var einnig vettvangur eldflaugarskota á miðjum 7. áratug síðustu aldar og þeirra fyrstu sem áttu sér stað á Íslandi.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Mýrdalssandur var einnig vettvangur eldflaugarskota á miðjum 7. áratug síðustu aldar og þeirra fyrstu sem áttu sér stað á Íslandi. Þar voru á ferðinni á fimmta tug franskra vísindamanna frá geimrannsóknarstofnuninni í Frakklandi. Tilgangur þeirra var að rannsaka norðurljósabeltið sem liggur meðal annars yfir Íslandi.

Vísindamennirnir skutu tveimur eldflaugum upp í ágúst 1964 á sandinum á móts við Höfðabrekkuheiði og tveimur öðrum skammt austan Skóga í lok ágúst og byrjun september árið eftir. Þær voru af gerðinni Dragon og voru sjö metrar að lengd og vógu 2,5 tonn hver, að því er kom fram í grein sem dr. Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, skrifaði í Morgunblaðið 2. ágúst árið 1964. Eldflaugarnar fóru í um 440 kílómetra hæð, út fyrir lofthjúp jarðarinnar. Til samanburðar má nefna að Alþjóðlega geimstöðin gengur í kringum jörðina í um 370 kílómetra hæð.

Þorsteinn aðstoðaði vísindamennina á ýmsan hátt, meðal annars með því að fylgjast með mælingum. „Þetta er eina skiptið sem maður hefur stjórnað eldflaugarskoti, ef svo má segja. Ég vakti yfir segulmæli Raunvísindastofnunarinnar og var í símasambandi við þá og sagði þeim hvenær þeir ættu að skjóta. Það var dálítið gaman að því að sumu leyti,“ segir hann.

Miklar varúðarráðstafanir voru gerðar í tengslum við skotin. Tilkynning var send til allra báta og skipa sem voru að veiðum undan Mýrdalssandi og Landhelgisgæslan gerði skip út til þess að gæta þess að enginn væri á svæðinu þegar flaugunum var skotið upp. Þá passaði lögreglan upp á að fólk færi ekki of nærri skotstaðnum.

Risastór rós norðurljósa yfir skotstaðnum

Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur var 19 ára gamall þegar hann fylgdist með eldflaugarskotunum á sínum tíma sem fulltrúi Almannavarna. „Þetta voru heljarmikil skot og gaman að fá að fylgjast með,“ segir hann.

„Það var sérstaklega eitt skipti sem það voru svo mikil norðurljós sem voru eins og risastór rós sem náði yfir allan himininn. Það var sérstaklega tilkomumikið og þeir voru örugglega ánægðir með það,“ segir Ágúst.