[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hagnaður Haga á rekstrarárinu 2013/2014 nam 3,95 milljörðum króna, sem jafngildir 5,2% af veltu félagsins. Til samanburðar var hagnaður félagsins 2,96 milljarðar á rekstrarárinu á undan. Rekstrartímabil Haga miðast við 1.

Hagnaður Haga á rekstrarárinu 2013/2014 nam 3,95 milljörðum króna, sem jafngildir 5,2% af veltu félagsins. Til samanburðar var hagnaður félagsins 2,96 milljarðar á rekstrarárinu á undan. Rekstrartímabil Haga miðast við 1. mars hvers árs, en ársreikningur félagsins var birtur eftir lokun Kauphallarinnar í gær.

Vörusala Haga jókst um 6,1% á síðasta rekstrarári og nam hún liðlega 76 milljörðum króna. Segir félagið það í takt við almenna veltuaukningu á dagvörumarkaði.

Rekstrarkostnaður hækkar um 2,0% milli ára en kostnaðarhlutfall lækkar úr 17,4% í 16,7%. Framlegð jókst úr 24,1% í 24,3% milli ára, en framlegð síðustu sex ára þar á undan var að meðaltali 24,7%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 5,9 milljörðum króna. EBITDA framlegð var 7,7% samanborið við 6,9% árið áður.

Heildareignir samstæðu Haga námu 26,6 milljörðum í lok rekstrarársins. Birgðir námu 4,8 milljörðum króna og höfðu minnkað um 5,3% frá lokum rekstrarársins á undan.

Eigið fé félagsins var 12,1 milljarður króna í lok rekstrarárs. Eiginfjárhlutfall var 45,5%, en það var 34% árið á undan.

Hagnaður á hlut fyrir síðasta rekstrarár nam 3,37 krónum, en hagnaður var 2,52 krónur á hlut árið á undan. Stærstu hluthafar Haga eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verslunarmanna.

Í afkomutilkynningu Haga segir að horfur í rekstri á rekstrarárinu 2014/2015 séu sambærilegar nýliðnu ári og geri áætlanir félagsins ráð fyrir því. Hafinn er undirbúningur að nýju vöruhúsi Banana og fellur stór hluti þeirrar fjárfestingar á því rekstrarári sem nú er hafið. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um aðrar stórar fjárfestingar. Áframhaldandi niðurgreiðsla vaxtaberandi skulda er áformuð og hefur meðal annars verið tekin ákvörðun um greiðslu 1.500 milljóna króna inn á lán félagsins í lok maí.