Gunnlaugur Hjartarson fæddist í Borgarfirði 15. apríl 1928. Hann lést í Reykjavík 16. maí 2014.

Móðir hans var Guðný Magnúsdóttir og faðir hans Hjörtur Vilhjálmsson. Hann ólst upp í Reykjavík hjá móður sinni og jafnframt hjá Ólafi og Ingibjörgu Waage að Húsum í Selárdal. Hann var verkamaður og vann ýmis störf en var lengst af í Hampiðjunni þar sem hann endurvann efni sem hafði fallið til hliðar.

Hann var giftur Ragnheiði Guðmundsdóttur, f. 24. janúar 1929, en foreldrar hennar voru Steinunn Anna Sæmundsdóttir og Guðmundur Þórarinn Tómasson. Þau bjuggu saman í Reykjavík í 53 ár. Dóttir Gunnlaugs og Ragnheiðar er Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, gift Leifi Birni Björnssyni. Börn þeirra eru Ragnheiður Harpa, Rakel Mjöll, Viktor Már og Íris María.

Gunnlaugur var jarðaður í kyrrþey frá Garðakirkju 28. maí 2014.

Elsku afi Gulli. Mikið sem mér finnst ég vera heppin að hafa átt þig sem afa minn. Þú varst algjör gjöf. Ég man hvað var gaman að koma heim til Íslands á sumrin og koma í heimsókn í Miðstrætið til ykkar ömmu. Þar var nýr heimur, þarna á loftinu. Með barnsaugum sérðu heiminn örlítið öðruvísi og minningin um þig í litla eldhúsinu, með bókastafla á borðinu og ískalt rjómasúkkulaði í ískápnum er ljóslifandi. Um leið og við birtumst varstu farin út í sjoppuna á horninu og kominn aftur með trúðaís og leikurinn var að giska á í hvaða lit tyggjó leyndist inn í ísnum. Trúðaísinn varð að endalausum stafla rauðra trúðahattaloka, úr þeim bjuggum við til hús, kastala og fallturna. Það var gaman að sjá glitta í grallarann í þér, þegar þú sást tækifæri til að segja brandara, eða koma okkur til að hlæja með hárkollu á höfðinu á nýársnótt eða þegar þú tókst upp á því að spila á munnhörpuna.

Þegar ég frétti að þú værir farinn var ég í Þýskalandi, og til að minnast þín þá gerði ég eitt sem þú hefur kannski óafvitandi kennt mér. Ég fór ein í langan göngutúr, eins og þú gerðir alltaf. Þessi var óvenjulangur og leiddi mig meðfram sjó og strönd og inn í eldgamlan, þýskan skóg. Á leiðinni spjallaði ég aðeins við þig og kvaddi þig á göngu. Síðan þá hef ég alltaf tekið mér tíma og gengið, stundum stuttan spöl, stundum lengri. Ég hugsa til þín á göngu, afi minn, að leggja kapal, raulandi við píanóið og þó ég hafi aðeins fengið að kynnast þér á efra æviskeiði þínu ímynda ég mér þig líka dansandi á böllum í Reykjavík, ég ímynda mér stundina þegar þú segist hafa unnið tjútt-keppni, eða var það tangó, eða swing? Mest minnist ég hlýjunnar sem þú færðir barnabörnum þínum, og þétts faðmlags þíns. Í minningum okkar lifirðu áfram, og við geymum þig í hjartanu. Takk fyrir tímann, samveruna og kærleikann, elsku afi. Við kveðjum með þakklætistárum og göngum áfram út í óvissuna sem lífið er, rík og stolt að hafa átt þig að.

Ást og hlýja,

Ragnheiður Harpa

Leifsdóttir.