Minn líkami Ólafur Darri, Andrea Marín og Erna Ómars eru meðal þeirra sem sátu fyrir á myndum Ástu. Hún túlkar þær tilfinningar sem fólk upplifir þegar það er svipt réttindum sem lúta að líkama þess, kynferði, kynhneigð og frjósemi.
Minn líkami Ólafur Darri, Andrea Marín og Erna Ómars eru meðal þeirra sem sátu fyrir á myndum Ástu. Hún túlkar þær tilfinningar sem fólk upplifir þegar það er svipt réttindum sem lúta að líkama þess, kynferði, kynhneigð og frjósemi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Milljónir sæta brotum á kyn- og frjósemisréttindum á degi hverjum. Til að vekja athygli á því ýtti Amnesty International úr vör herferðinni Minn líkami, mín réttindi. Af því tilefni verður opnuð ljósmyndasýning á KEX á miðvikudag, en þekktir Íslendingar sátu fyrir hjá ljósmyndaranum Ástu Kristjáns.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við leituðum til Ástu Kristjáns ljósmyndara fyrir nokkrum mánuðum í þeim tilgangi að fá hana til að túlka með ljósmyndum margvísleg brot á alþjóðlegum réttindum sem kallast kyn- og frjósemisréttindi,“ segir Bryndís Bjarnadóttir, herferða- og aðgerðastjóri hjá Íslandsdeild Amnesty International, og bætir við að ljósmyndasýningunni sé ætlað að vekja athygli á alþjóðlegri herferð sem kallast Minn líkami, mín réttindi og stendur til tveggja ára. „Í þessari herferð er lögð áhersla á fimm lönd og landsvæði, Nepal, Búrkína Fasó, Írland, El Salvador og Norðvestur-Afríka, en það eru Túnis, Alsír og Marokkó. Vandamálin eru ólík í þessum löndum; í El Salvador er til dæmis algert bann við fóstureyðingum í öllum tilvikum, jafnvel þó svo að um þungun vegna nauðgunar og sifjaspella sé að ræða eða þegar líf eða heilsa móður er í hættu. Flestar stúlkur sem verða ófrískar vegna nauðgunar og sifjaspella þar í landi eru mjög ungar, á aldrinum níu til sautján ára.“

Þurfa samþykki maka

Bryndís nefnir dæmi um mál sem kom upp í Níkaragva fyrir nokkrum árum, þegar níu ára stúlka varð barnshafandi vegna nauðgunar sem var auk þess sifjaspell. „Nokkrar konur þar í landi sem voru lögfræðingar tóku sig saman og börðust fyrir máli stúlkunnar, en þær enduðu allar á bak við lás og slá. Í Úganda er fólk sett á bak við lás og slá fyrir það eitt að elska einstakling af sama kyni. Í Búrkína Fasó er þetta með þeim hætti að konur þurfa að fá samþykki hjá maka fyrir getnaðarvörnum. Í Írlandi eru fóstureyðingar ólöglegar, nema raunveruleg hætta sé á að meðgangan stofni lífi móður í hættu. Írskar konur hafa tækifæri til að fara til Bretlands í fóstureyðingar á sjúkrahúsum, en konurnar í El Salvador stofna lífi sínu í hættu með því að fara í fóstureyðingar í heimahúsum þar sem aðstæður eru slæmar.“

Nauðgun gjaldfellir konur

Bryndís segir að í Marokkó, Alsír og Túnis sé áherslan í löggjöfinni í kynferðisofbeldismálum á siðsemi þolanda, en ekki á það að um alvarlega árás sé að ræða. „Í Alsír og Túnis geta til dæmis gerendur nauðgana sloppið við dóm með því að giftast þolanda sem er undir átján ára aldri. Nýverið hefur þetta ákvæði verið fellt úr lögum í Marokkó, en ástæðan fyrir því var heimsþekkt mál 16 ára stúlku, Aminu Filali, sem gleypti rottueitur í kjölfar nauðgunar þar sem gerandinn átti að giftast henni. Hún lét lífið. Löggjöfin í þessum löndum byggir á gríðarlegri mismunun í garð kvenna, þetta snýst um hugmyndafræði um virði og hlutverk konunnar. Kona sem er óspjölluð þykir álitlegri kvenkostur en sú sem er það ekki, þannig að nauðgun gjaldfellir konur og stúlkur í þessum löndum. Þyngd dóms í nauðgunarmálum fer eftir því hvort þolandinn er hrein mey eða ekki. Konunni er þannig refsað fyrir að hafa verið nauðgað.“

Baráttan ber árangur

Bryndís segir að í herferðinni sé lögð áhersla á að taka upp mál einstaklinga í þeim löndum sem horft er til og þrýst á stjórnvöld í viðkomandi ríki að virða og vernda mannréttindi. Hún nefnir sem dæmi mál Savidu, konu af indverskum uppruna sem búsett er á Írlandi. „Árið 2012 fór hún þar ásamt manni sínum á spítala og bað um fóstureyðingu af því að vandkvæði voru á meðgöngunni. En því var hafnað, þrátt fyrir að heilbrigðisstarfsfólk vissi að fóstrið gæti ekki lifað af. Nokkrum dögum síðar fékk Savida blóðeitrun og dó.“ Bryndís tekur fram að sem betur fer séu til einstaka mál sem fari vel. „Til dæmis sagan af henni Beatriz í El Salvador sem var barnshafandi tuttugu og tveggja ára og vitað var af miklum fósturgöllum, það vantaði hluta af heila fóstursins sem hún gekk með og það var alveg ljóst að barnið gæti aldrei lifað af eftir fæðingu. Auk þess var mikil hætta á að meðgangan gæti leitt Beatriz til dauða. Hún þrýsti ásamt fjölda aðgerðarsinna víða að, meðal annars íslenskra, á stjórnvöld og heilbrigðisstarfsfólk að leyfa henni að fara í fóstureyðingu. Það tók nokkra mánuði en að lokum var henni leyft að fara í snemmbúinn keisaraskurð og hún lifði,“ segir Bryndís og bætir við að Íslandsdeild Amnesty International hafi einnig tekið upp mál Beatriz.

Hvað eru kyn- og frjósemisréttindi?

Allir eiga rétt á frelsi til ákvarðana um líf sitt og líkama. Víða eru þó margir sviptir þessum sjálfsákvörðunarrétti og sæta refsingu fyrir að nýta þann rétt. Hugtakið kyn- og frjósemisréttindi vísar til margskonar mannréttinda sem skipta máli í öllu sem viðkemur kynhneigð, kynferði og frjósemi. Kyn- og frjósemisréttindi tengjast jafnframt frelsi frá mismunun, ofbeldi, þvingun og valdbeitingu og réttinum til að njóta bestu mögulegu kyn- og frjósemisheilsu. Virðing fyrir þessum réttindum er nauðsynleg til að geta lifað með reisn og notið líkamlegrar, andlegrar, tilfinningalegrar og félagslegrar velferðar.

Ríkisstjórnum allra landa ber að vernda, virða og uppfylla kyn- og frjósemisréttindi.