[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Mikið mannlíf var í miðbæ Reykjavíkur í gær en þangað streymdi fólk á öllum aldri til að njóta veðurblíðunnar, en hitinn var í kringum 13-14 gráðurnar í Reykjavík.

Sviðsljós

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Mikið mannlíf var í miðbæ Reykjavíkur í gær en þangað streymdi fólk á öllum aldri til að njóta veðurblíðunnar, en hitinn var í kringum 13-14 gráðurnar í Reykjavík. Auðséð var á borgarbúum að þetta sólríka veður hafi glatt þá en sumarið fer mun betur af stað í ár en í fyrra. Met var slegið í júní í fyrra, sólarstundir höfðu ekki mælst jafn fáar í Reykjavík síðan árið 1995. Sólarstundir voru ekki nema 121,7 í júní 2013 og var það 90 stundum undir meðaltali síðustu 10 júnímánaða þar áður, eða frá árunum 2003–2012. Úrkoma í júní í fyrra var 30 prósentum yfir meðallagi og höfðu úrkomudagar í Reykjavík ekki verið jafn margir síðan árið 2003, líkt og fram kemur á heimasíðu Veðurstofu Íslands.

Mikið var um að vera í gær. Tómbóla, útimarkaður með handverk og tónleikar á Ingólfstorgi með hljómsveitinni White signal var meðal þess sem gestir miðborgarinnar gátu notið í gær.

Nóg að gera í veitingarekstri

Kaffihús borgarinnar voru full út að dyrum og voru veitingamenn mjög ánægðir með þetta sólríka veður.

„Sumarið fer frábærlega af stað,“ segir Brynjar Eymundsson, sem rekur veitingastaðinn Höfnina við gömlu höfnina í Reykjavík en þar var margt um manninn í hádeginu en margir veitingamenn fundu verulega fyrir skorti á sólskini síðasta sumar sem kom niður á rekstrinum.

Brynjar segir sumarið fara mun betur af stað en síðasta sumar og að hann sé bjartsýnn á að veðrið verði gott í sumar.

Starfsfólk í ísbúðum landsins höfðu einnig í nógu að snúast í gær þegar afgreiða þurfti fjölda ísþyrsta Íslendinga.

„Það er búið að vera nóg að gera, við erum búin að vera á haus,“ segir Karen Ósk Pétursdóttir, en hún starfar í ísbúðinni Valdís. Hún segir sorbe-ís, ís sem inniheldur enga mjólk, vinsælasta ísinn á dögum sem þessum og þá sérstaklega þann með sítrónubragði.

Aukning í reiðhjólasölu

„Það var aukning í hjólasölunni hjá okkur í dag og í gær, en maí kom einnig mjög vel út, talsverð aukning frá því í fyrra,“ segir Jón Þór Skaftason, verslunarstjóri í Erninum. Hann segir vont veður síðasta sumar ekki hafa haft mikil áhrif á þá en telur það hafa bitnað á nokkrum aðilum innan geirans og að margir hafi haft miklar væntingar síðasta sumar. Hann telur ýmsar ástæður liggja að baki aukinni sölu á reiðhjólum en segir að margir Íslendingar líti á reiðhjól sem raunhæfan valkost þegar kemur að fararskjóta. „Svo keppa núna fleiri í þessu, þetta spilar allt saman,“ segir Jón.

Sundgestir baða sig í sólinni í sundlauginni á Seltjarnarnesi

Margir nýttu góða veðrið í gær til sundferða. Sundlaug Seltjarnarness var þétt setin þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði.

Á höfuðborgarsvæðinu eru samtals 17 sundlaugar sem búast má við að verði vel nýttar í dag og á morgun, en samkvæmt veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands á sólin að skína hátt á lofti um land allt um helgina. Á myndinni má sjá íbúa Seltjarnarness og aðra gesti sundlaugarinnar njóta sólarinnar í gær. Armkútarnir hafa nú fengið nýtt hlutverk í lauginni en kútarnir virðast auka þægindi sundlaugargesta til muna á góðum sumardögum sem þessum.