Í sól og sumaryl Börnin fögnuðu sólinni og hitanum í Nauthólsvík í gær og sulluðu kát í sjónum. Áframhaldandi blíðu er spáð á öllu landinu í dag.
Í sól og sumaryl Börnin fögnuðu sólinni og hitanum í Nauthólsvík í gær og sulluðu kát í sjónum. Áframhaldandi blíðu er spáð á öllu landinu í dag. — Morgunblaðið/Ómar
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Hiti fór yfir tuttugu stig á nokkrum stöðum á landinu í gær. Hæstur mældist hann í Húsafelli, 21,1 stig, þá fór hann í um 21 stig á tveimur stöðum í uppsveitum Árnessýslu, við Bræðratunguveg og í Árnesi.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Hiti fór yfir tuttugu stig á nokkrum stöðum á landinu í gær. Hæstur mældist hann í Húsafelli, 21,1 stig, þá fór hann í um 21 stig á tveimur stöðum í uppsveitum Árnessýslu, við Bræðratunguveg og í Árnesi. Hlýjast var sunnanlands í gær en hiti náði þó 16 stigum á Norðausturlandi. Svalara var við ströndina, t.d. náði hitinn ekki 10 stigum við Húnaflóa. Búist er við svipuðu veðri á landinu í dag, heitast verður inn til landsins, í uppsveitum Árnessýslu og innsveitum norðanlands.

Þó að hitinn hafi náð tuttugu stigum í gær voru slíkar hitatölur seinna á ferðinni þetta árið en undanfarin ár. Hitinn komst fyrst upp í 20 stig á landinu á fimmtudaginn og er það um hálfum mánuði seinna en síðustu ár. Á tímabilinu frá 1995 til 2009 er meðaltalsdagsetningin 23. maí sem hitinn fór fyrst upp í 20 stig á árinu. En ef tímabilið frá 1949 til 2009 er tekið á mönnuðum stöðvum er meðaltalsdagsetningin 5. júní, eins og var í ár.

Vorleysingar á hálendinu eru miklar núna í hlýjunni og rennsli í ám því nokkurt, sérstaklega á Norðausturlandi og Austurlandi. Búist er við að hlýindin um helgina auki rennslið enn frekar. Staðan á miðlunarlónum Landsvirkjunar batnar nú hratt vegna vorflóðanna. Langt er þó í að lónin fyllist og ekki víst að þau nái öll að fyllast vegna lágrar vatnsstöðu í vor eftir kaldan vetur. 4 og 6