Úr leik Thanai Lauren Annis og lið hennar Þór/KA eru úr leik í bikarkeppninni í ár eftir að hafa komist í úrslitaleikinn í fyrra. Íris Dögg Gunnarsdóttir í marki Fylkis sér hér við henni í leik liðanna í gær sem lyktaði með 1:0 sigri Fylkis.
Úr leik Thanai Lauren Annis og lið hennar Þór/KA eru úr leik í bikarkeppninni í ár eftir að hafa komist í úrslitaleikinn í fyrra. Íris Dögg Gunnarsdóttir í marki Fylkis sér hér við henni í leik liðanna í gær sem lyktaði með 1:0 sigri Fylkis. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Leikið var í sextán liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu í gær. Silfurlið síðasta árs, Þór/KA, tapaði á heimavelli gegn Fylki, 1:0, og fer því ekki lengra þetta árið.

Leikið var í sextán liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu í gær. Silfurlið síðasta árs, Þór/KA, tapaði á heimavelli gegn Fylki, 1:0, og fer því ekki lengra þetta árið. Lucy Gildein skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik, en norðankonur sóttu stíft í þeim síðari og áttu meðal annars marktilraun í þverslá.

Valur lenti tvívegis undir gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ en vann að lokum sigur, 4:2, þar sem Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði tvö marka Vals. Hún hefur nú skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum sínum eftir að hafa skorað gegn Breiðabliki í síðustu umferð deildarinnar. Hún kom óvænt inn í byrjunarliðið í þeim leik vegna meiðsla í upphitun og hefur sannarlega nýtt tækifærið.

Íslandsmeistarar Stjörnunnar gerðu góða ferð á Snæfellsnesið og unnu þar Víking frá Ólafsvík, 3:0, í leik sem spilaður var á Grundarfirði. ÍBV vann svo nauman sigur á Álftanesi á Bessastaðavelli, en Nadia Lawrence tryggði Eyjakonum 1:0 sigur með marki stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Selfoss með tak á ÍA

Selfoss vann ÍA í annað sinn á fjórum dögum á heimavelli sínum með mörkum frá Dagnýju Brynjarsdóttur og Guðmundu Brynju Óladóttur. Liðin mættust á þriðjudag í deildinni og þá hafði Selfoss einnig betur, 3:1.

Pepsi-deildarlið FH tapaði svo fyrir 1. deildarliði KR, 1:0, en markið skoraði Sara Lissy Chontosh strax á níundu mínútu.

Framlengingu og vítaspyrnukeppni þurfti svo í leik Þróttar og ÍR í Laugardal. Þróttur komst yfir í fyrri hálfleik en gestirnir úr Breiðholtinu sneru taflinu sér í hag eftir það og komust yfir fyrir hlé. Heimakonur jöfnuðu hins vegar metin þegar hálftími var eftir, lokatölur 2:2 eftir venjulegan leiktíma og úr varð framlenging. Ekkert var skorað í henni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar hafði Þróttur betur samanlagt 7:6 og verður í pottinum í átta liða úrslitunum.

Síðasti leikur sextán liða úrslitanna fer fram í dag þegar ríkjandi bikarmeistarar Breiðabliks mæta Hetti frá Egilsstöðum. yrkill@mbl.is