Jens Kristján Höskuldsson fæddist á Blönduósi hinn 4. september 1953. Hann lést 12. maí 2014.

Jens var sonur hjónanna Oddnýjar Kristjánsdóttur og Höskuldar Þórs Ágústssonar, þau eru bæði látin. Systkini Jens Kristjáns: Alsystkin eru þau Sóley Guðrún, hún lést árið 1996, og bræðurnir Sigurður Reynir og Ágúst Þorvaldur. Fyrir átti Oddný soninn Guðmund Má Frans Sigurðsson.

Oddný og Höskuldur Þór skildu og flutti hún þá með barnahópinn sinn í Skriðdalinn þar sem hún gerðist ráðskona á Borg hjá Ragnari Bjarnasyni, bónda þar. Þau gengu í hjónaband og eignuðust dæturnar Margréti Kristínu og Ingibjörgu.

Jens Kristján, eða Stjáni eins og hann var venjulega kallaður, var aðeins sjö ára þegar hann fluttist að Borg með móður sinni og systkinum og þar ólst hann upp í stórum og stækkandi systkinahópi. Stjáni hlaut sína skólagöngu í Þingmúla en þar var þá haldinn skóli fyrir sveitina. Hann átti mörg handtök í búskapnum á Borg auk þess að fara ungur í launavinnu, bæði á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Á Reyðarfirði vann hann bæði við uppskipun og í sláturhúsinu. Sláturhúsið á Egilsstöðum varð líka hans vinnustaður og svo vann hann í allmörg ár á Höfn í Hornafirði, sem vertíðarmaður og í fiskverkun ýmiss konar. Um 1990 flutti Stjáni aftur upp á Hérað og vann ýmis störf, m.a. í kjúklingaslátrun í Fossgerði, í Pappaós og í Stólpa.

Síðust 10 árin hefur Stjáni unnið í Bónus á Egilsstöðum.

Útför Jens Kristjáns fór fram frá Egilsstaðakirkju 19. maí 2014.

„Áttu ekki kaffi, ég skal koma með köku.“ Þannig voru mörg símtöl frá Kristjáni til móður okkar og vafalaust hafa fleiri fengið svipuð símtöl.

Stjáni, eins og hann var almennt kallaður, var vinmargur og vinfastur maður. Þeim sem einu sinni kynntust honum var alla tíð vel við þennan sérstæða mann. Enda voru margir tilbúnir að aðstoða hann ef vandi steðjaði að. Hann var hvers manns hugljúfi, vinfastur, trygglyndur, skapgóður og hafði alveg sérstakan húmor. Hann hló stundum svo dátt að tárin runnu í stríðum straumum niður kinnarnar. Við minnumst þess að hafa frétt af því að einhverju sinni þegar Stjáni var á nýjum vinnustað vildu einhverjir gárungar stríða þessum manni sem greinilega var „öðruvísi“ en aðrir. Þá tóku ungir vinir hans og sveitungar í taumana og sögðu: „Þið látið Stjána í friði.“ Þannig var það oft að vinirnir stóðu vörð um hann. Stjáni var fæddur á Blönduósi en kom austur í Skriðdal á sjöunda ári er móðir hans flutti þangað með hann og þrjú yngri systkini hans. Kristján var heima í sveitinni fram yfir tvítugt en fór þá í vinnu hér og þar. Hann fékk fljótlega íbúð á Egilsstöðum og vann lengst í Blómabæ hjá Ástu og Kjartani sem alla tíð hafa reynst honum einstaklega vel og síðar í Bónus þar sem hann átti góða að og honum leið mjög vel þar.

Kæri Stjáni, nú ert þú sofnaður svefninum langa. Hafðu kæra þökk fyrir tryggðina, einlægnina og ljúfmennskuna. Systkinin frá Haugum.

Þorgerður, Ingifinna,

Sigrún, Jóna Björg,

Stefán og Þórður.