Borgin getur rétt kúrsinn í lögheimilisdeilu

Fólk er sífellt til vandræða, áttar sig ekki á gildi forsjárhyggjunnar, skilur ekki að reglur eru reglur og fer af óbilgirni fram á sveigjanleika og liðlegheit, líkt og kerfið eigi að þjóna því, en ekki öfugt.

Í Almannadal ofan við Reykjavík búa hjónin Sveinbjörg Gunnarsdóttir og Heiðar P. Breiðfjörð. Í risi hesthúss síns hafa þau gert sér heimili. Eins og Heiðar segir í Morgunblaðinu í gær voru hesthúsin reist í góðærinu og fóru menn fram úr sér. Á 70 fm rými átti að vera kaffistofa en þau brugðu á það ráð að gera þar íbúð. Nú er reyndar búið í fjórum húsum í Almannadal.

Hjónin vilja hafa lögheimili sitt í hesthúsinu en því hefur verið synjað. Reykjavíkurborg heimilar ekki búsetu á opnum svæðum. Ugglaust er hægt að færa rök fyrir því. Langt sé í alla þjónustu og innviði hefðbundinna íbúðarhverfa vanti. Við þetta hafa bændur löngum mátt búa og er spurning hvers þeir eigi að gjalda.

Í fljótu bragði er hins vegar erfitt að sjá hvers vegna hjónin mega ekki hafa lögheimili í íbúðinni fyrir ofan hesthúsið.

Nú hefur Bjarni Jónsson, formaður Félags hesthúsaeigenda í Almannadal, lagt fram kæru vegna synjunarinnar. Bendir Bjarni á að hvergi standi í lögum að ekki megi vera með lögheimili í hesthúsabyggð. Kæran er á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Þetta mál er reyndar angi af mun stærri vanda. Á höfuðborgarsvæðinu búa mörg þúsund manns í leiguíbúðum í hverfum sem ekki eru ætluð undir íbúðarbyggð. Þetta ástand á rætur að rekja til hás íbúðar- og leiguverðs. Oft er þetta húsnæði óíbúðarhæft og brunavarnir í lamasessi. Yfirvöld búa hins vegar við þá mótsögn að geta ekki farið og fyrirskipað umbætur á brunavörnum vegna þess að þá væri verið að viðurkenna húsnæði sem er ekki viðurkennt.

Hjá Sveinbjörgu og Heiðari er hins vegar ekkert að brunavörnum og húsnæðið er hið glæsilegasta. Íbúð þeirra er bara fyrir ofan hesthús en ekki undir súð á Bergþórugötunni.

Kæra hesthúsaeigendanna í Almannadal gefur borginni færi á að ýta forsjárhyggjunni til hliðar og rétta kúrsinn.