Framkvæmdir Þrátt fyrir aukna fjárfestingu og einkaneyslu dróst landsframleiðsla saman um 0,1% á fyrsta fjórðungi samkvæmt Hagstofunni.
Framkvæmdir Þrátt fyrir aukna fjárfestingu og einkaneyslu dróst landsframleiðsla saman um 0,1% á fyrsta fjórðungi samkvæmt Hagstofunni. — Morgunblaðið/Ómar
Landsframleiðsla dróst saman um 0,1% á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil árið áður. Einkaneyslan jókst hins vegar um 3,9% á tímabilinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Landsframleiðsla dróst saman um 0,1% á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama tímabil árið áður. Einkaneyslan jókst hins vegar um 3,9% á tímabilinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Á það er bent í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans að samdráttur á fyrsta fjórðungi skýrist fyrst og fremst af neikvæðu framlagi utanríkisviðskipta. Ástæður þessa séu verri aflabrögð í loðnuveiðum og minnkandi útflutningur álafurða. Innflutningur jókst um tvöfalt meira en útflutningur, eða 11,9%.

Greinendur Landsbankans segja að samdráttur í útflutningi á áli - um tæplega 10 milljarða króna - megi að nokkru leyti rekja til raforkuskerðingar til álveranna.

Mikill vöxtur var í einkaneyslu á fjórðungnum og þarf að leita allt aftur til annars ársfjórðungs 2011 til að finna meiri aukningu á milli ára. Hagfræðideildin telur þó að vöxturinn sé í samræmi við þær hagspár sem birst hafa undanfarið. Í nýjustu spá bankans er gert ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu á árinu 2014 verði um 3,7%. Sú spá er talsvert bjartsýnni en gert var ráð fyrir í nóvember 2013 og skýrist af hraðari lækkun atvinnuleysis, meiri hækkun kaupmáttar launa og áhrifum í tengslum við niðurgreiðslu ríkissjóðs á verðtryggðum fasteignalánum.

Í tölum Hagstofunnar kom einnig fram að samneysla hefði aukist um 2% á milli ára og fjárfesting um 17,6%.

Hagfræðideild Landsbankans segir að þrátt fyrir samdrátt í landsframleiðslu þá sé ekkert í tölum Hagstofunnar sem eigi að koma á óvart. Viðbúið hafi verið að minni loðnuveiðar og álútflutningur myndu draga hagvöxtinn töluvert niður. Greinendur eru flestir hverjir bjartsýnir á hagþróun þessa árs og spá 2,7-3,2% hagvexti.