Í gær birti Morgunblaðið grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson þar sem hann gerir því skóna að konur hafi bara haft það nokkuð gott samanborið við karla.

Í gær birti Morgunblaðið grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson þar sem hann gerir því skóna að konur hafi bara haft það nokkuð gott samanborið við karla. Hann segir jafnréttisbaráttu kvenna lokið á Vesturlöndum og lýsir yfir sigri fyrir þeirra hönd en mig langar að svara nokkrum staðhæfingum Hannesar og freista þess að sannfæra hann um að e.t.v. sé ekki tímabært að afskrifa kynjafræðikennarana.

Það er kannski rétt að byrja á því að segja að jafnréttisbaráttan byggist ekki á sigri kvenna í keppni um hverjir hafa það meira skítt, konur eða karlar. Hannes telur það til að lífslíkur karla séu minni en kvenna, að þeir séu líklegri til að fremja sjálfsmorð, að þeir séu líklegri til að deyja í umferðarslysum og að meðal fanga séu karlmenn í yfirgnæfandi meirihluta. Þetta er allt satt og rétt en það gleymist að spyrja af hverju. Getur verið að ástæðurnar megi rekja til nákvæmlega sama feðraveldisins og ákvað að konur væru annars flokks manneskjur? Hugsunarháttarins sem femínistar og aðrir jafnréttissinnar eru enn að reyna að útrýma? Staðalímynda sem segja að karlar „eigi að vera sterkir, dimmraddaðir, afla tekna og sjá fyrir heimilinu,“ líkt og Hannes kemst að orði.

Í grein sinni varpar Hannes ljósi á þá gæfu kvenna að hafa ekki þurft að sinna herskyldu til jafns við karla. „Tvær blóðugar heimsstyrjaldir voru háðar á 20. öld auk margra staðbundinna stríða. Karlar voru langflestir þeirra sem þá féllu. Sýna þessar staðreyndir ekki að þungbærara sé að vera karl en kona?“ Svarið er nei. Stríð voru og eru háð af karlkyns leiðtogum sem konur höfðu framan af ekki rétt til að kjósa, né höfðu þær rétt til beinnar þátttöku í fyrrnefndum styrjöldum. Það voru karlmenn sem ákváðu að aðeins karlmenn myndu falla á vígvellinum. Konur hafa hins vegar aldrei farið varhluta af stríðshörmungum. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum var 250-500 þúsund konum nauðgað í þjóðarmorðinu í Rúanda árið 1994, fleiri en 60 þúsund í borgarastyrjöldinni í Síerra Leóne, 20-50 þúsund í Bosníustríðinu og a.m.k. 200 þúsund í Austur-Kongó frá 1996. Þegar maður les vitnisburði þessara kvenna sannfærist maður fljótt um að það sé margt verra en að deyja.

Fullyrðing Hannesar um að hlutfall transkvenna af þeim sem gangast undir kynleiðréttingu sé til marks um að meiri eftirspurn sé eftir því að vera kona en karl dæmir sig sjálf. Fólk velur ekki kyn frekar en kynhneigð. Hann heldur því síðan fram að kynbundinn launamunur sé eðlilegur af því að lægri laun séu í boði fyrir þau störf sem „konur hafa tilhneigingu til að velja. Þau störf krefjast ekki samfelldrar viðveru, sívirkrar þekkingaröflunar og fela ekki í sér verulega ábyrgð“. Í fyrsta lagi er það nú svo að konur fá lægri laun fyrir nákvæmlega sömu störf og karlar og að auki er verðmætamat hins frjálsa markaðar brenglað; það virðist t.d. mikilsverðara að fást við pappír en fólk. Það er rétt hjá Hannesi að hagsmunir kynjanna fara saman en ég er ekki viss um að hann átti sig á hver „óvinurinn“ er. holmfridur@mbl.is

Hólmfríður Gísladóttir