Uppgangur Miklar framfarir hafa verið í íslenska kvennalandsliðinu síðustu ár. Deildin hér heima hefur einnig styrkst mikið sem skilar sér í landsliðið.
Uppgangur Miklar framfarir hafa verið í íslenska kvennalandsliðinu síðustu ár. Deildin hér heima hefur einnig styrkst mikið sem skilar sér í landsliðið. — Ljósmynd/KSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Mér finnst athyglisvert það sem kom fram í Morgunblaðinu í vikunni hversu hratt útrás íslenskra knattspyrnukvenna hefur gengið til baka.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Mér finnst athyglisvert það sem kom fram í Morgunblaðinu í vikunni hversu hratt útrás íslenskra knattspyrnukvenna hefur gengið til baka. 70 prósent íslenskra landsliðskvenna munu spila hér á landi í sumar og einungis átta leikmenn sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu eru á mála hjá erlendum félögum. Þetta er mikil breyting einungis frá síðasta ári þegar fimmtán leikmenn léku erlendis.

Íslenska kvennalandsliðið tryggði sér þátttökurétt í lokakeppni Evrópumótsins árið 2009 í fyrsta sinn og ég hlera áhyggjufullar raddir um niðursveiflu í landsliðinu vegna heimkomu reyndra leikmanna. En er ástæða til að örvænta? Ég held ekki. Í rauninni þvert á móti. Það sést hvað best ef við lítum aðeins um öxl til þess tíma þegar kvennalandsliðið var í baráttu um að komast inn í þessa sögulegu lokakeppni Evrópumótsins árið 2009. Þó íslenskar knattspyrnukonur dragi saman seglin erlendis verður meðbyrinn sífellt sterkari hér heima

Pepsi-deild kvenna verður sterkari með hverju árinu. Í undankeppninni fyrir þetta sögufræga Evrópumót heyrði það til undantekninga ef landsliðskonurnar spiluðu með erlendum félagsliðum. Uppistaðan í liðinu voru leikmenn úr Breiðabliki, KR og Val, en dreifingin er meiri nú og deildin þar af leiðandi sterkari. Það þarf ekki að horfa nema aftur um áratug til þess að sjá hvað þróun kvennadeildarinnar hér heima hefur verið mikil.

Sumarið 2004 varð Valur Íslandsmeistari í átta liða deild þar sem spilaðir voru fjórtán leikir. Markatala þeirra var 56:7. Í deildinni sumarið 2006 voru níu leikir þar sem sigurliðið vann með tíu marka mun eða meira. Þetta er, nánast, einsdæmi í deildinni í dag.

Gæðin dreifast í deildinni

Sem fyrr segir dreifast gæðin betur um deildina. Landsliðskonurnar eru ekki allar á mála hjá einu eða tveimur liðum, sem sést einna best á undirskrift Þóru B. Helgadóttur hjá Fylki. Önnur dæmi eru til að mynda Dagný Brynjarsdóttir hjá Selfossi og Katrín Ásbjörnsdóttir hjá Þór/KA. Að mínu viti ættu reyndar fleiri í því liði að fá tækifæri í landsliðinu, en það er annað mál.

Atvinnumennska helst svo ekki í hendur við árangur. Reynsla þeirra margra sem hafa snúið heim er að betur sé haldið um hlutina hér. Það á að byggja á því. Mikilvægt er fyrir sterkt landslið að hafa sterka deild.

Svo eru ótaldar þær erlendu landsliðskonur sem leika í deildinni. Hin ítalska Marta Carissimi hjá Stjörnunni, Roxanne Barker frá Suður-Afríku í marki Þórs/KA og serbinn Vesna Smiljkovic hjá ÍBV. Þetta eru einungis örfá dæmi en allt eru þetta leikmenn sem ættu að geta deilt reynslu sinni með ungu stelpunum í liðum sínum.

Það mun skila sér í áframhaldandi stíganda í gæðum liðanna, deildarinnar og landsliðsins. Það er því engin ástæða til að örvænta og landsliðið er nú í baráttu um umspilssæti fyrir komandi heimsmeistaramót. Liðið spilar gegn Danmörku um næstu helgi og Möltu hér heima skömmu síðar, en landsliðshópinn má sjá hér til hliðar.

Ekki bara leikmennirnir

En þó deildin sé sterkari og kvennalandsliðið hafi verið á stöðugri uppleið síðustu ár, eitthvað sem er komið til að vera, velti ég vöngum yfir því af hverju fylgnin hefur ekki verið meiri á öðrum stöðum íþróttarinnar. Á dómaralista KSÍ eru rúmlega fimmtíu einstaklingar, en einungis fimm konur. Einnig hallar mikið á þær í nefndum. Ég veit ekki hvað veldur, en það er áhyggjuefni.

Höldum áfram að styðja íslenska knattspyrnu, karla og kvenna, og nýtum meðbyrinn. Áfram Ísland.

Þær fara til Danmerkur

MARKVERÐIR

Þóra B. Helgadóttir, Rosengård

Guðbjörg Gunnarsd., Potsdam

Sandra Sigurðardóttir, Stjörn.

VARNARMENN

Ólína G. Viðarsdóttir, Val

Hallbera G. Gísladóttir, Torres

Sif Atladóttir, Kristianstad

Glódís P. Viggósdóttir, Stjörn.

Mist Edvardsdóttir, Val

Elísa Viðarsdóttir, Kristianstad

Anna B. Kristjánsdóttir, Stjörn.

MIÐJUMENN

Dóra María Lárusdóttir, Val

Sara B. Gunnarsd., Rosengård

Rakel Hönnudóttir, Breiðabliki

Dagný Brynjarsdóttir, Selfossi

Þórunn H. Jónsd., Avaldsnes

Guðný B. Óðinsd., Kristianstad

Hólmfríður Magnúsd., Avaldsn.

Fanndís Friðriksdóttir, Breiðab.

FRAMHERJAR

Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörn.

Elín Metta Jensen, Val

*Leikið er við Dani í Vejle 15. júní og Möltu á Laugardalsvellinum 19. júní.