Skólaslit Tryggvi Þorsteinsson læknir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík fyrir sjötíu árum, 17. júní 1944. Hér er hann með nýstúdentum 30. maí 2014. Ísland var konungsríki þegar Tryggvi setti upp stúdentshúfuna, en lýst var yfir stofnun lýðveldis síðdegis sama dag á Þingvöllum.
Skólaslit Tryggvi Þorsteinsson læknir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík fyrir sjötíu árum, 17. júní 1944. Hér er hann með nýstúdentum 30. maí 2014. Ísland var konungsríki þegar Tryggvi setti upp stúdentshúfuna, en lýst var yfir stofnun lýðveldis síðdegis sama dag á Þingvöllum. — Morgunblaðið/Ómar
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Ég minntist á það að við erum síðustu stúdentarnir sem brautskráðust í konungsríkinu Íslandi,“ sagði Tryggvi Þorsteinsson læknir, en hann flutti ávarp fyrir hönd 70 ára stúdenta við slit Menntaskólans í Reykjavík fyrir viku.

Tryggvi er níræður, en ber aldurinn vel, er ern og hress. Ávarp hans við skólaslitin fékk góðar undirtektir. Tryggi varð ásamt 66 öðrum stúdent frá MR 17. júní 1944, daginn sem Ísland varð lýðveldi.

„Athöfnin var á sal klukkan 10 um morguninn,“ sagði Tryggvi, „og að henni lokinni fórum við öll saman til Þingvalla í skólabílnum, „gamla Grána“, og vorum viðstödd þegar lýst var yfir stofnun lýðveldis á Lögbergi. Það var úrhellisrigning þennan dag eins og frægt er, en þetta er manni enn afar minnisstætt. Stundin var mjög hátíðleg.“ Daginn eftir tóku stúdentarnir frá MR þátt í skrúðgöngu í Reykjavík.

Kristján konungur X. var þjóðhöfðingi Íslands og Danmerkur þegar Tryggvi var að vaxa úr grasi. En Íslendingar stefndu ótrauðir að því að stofna lýðveldi og var það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 1944. Ákveðið var að lýsa yfir stofnun lýðveldis á Þingvöllum síðdegis 17. júní, á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar forseta. Skólaslit Menntaskólans voru fyrir hádegi sama dag þannig að stúdentarnir sem útskrifuðust voru enn þegnar konungsríkis þegar Pálmi Hannesson rektor afhenti þeim prófskírteinin.

Stærðfræðidúx

Níu samstúdentar Tryggva voru viðstaddir skólaslitin í síðustu viku. Fleiri eru á lífi en áttu ekki heimangengt. „Við höldum enn hópinn,“ segir Tryggvi. „Við reynum að hittast alltaf fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði, borða saman og rifja upp liðna tíma.“

Tryggvi varð dúx frá stærðfræðideild MR. Eftir stúdentspróf fór hann í læknanám, lauk embættisprófi 1951 og stundaði síðan framhaldsnám í handlækningum í Danmörku og Svíþjóð. Hann varð þjóðkunnur læknir og minnast margir hans vafalaust af slysadeild Borgarspítalans þar sem hann starfaði um langt árabil og var meðal annars yfirlæknir þar. Kona hans er Hjördís Björnsdóttir.

Ritaði endurminningar

Fyrir nokkrum árum sendi Tryggvi frá sér endurminningaritið Á æskuslóðum við Djúp , þar sem hann segir frá æsku sinni og uppvexti í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Þar þjónaði faðir hans, séra Þorsteinn Jóhannesson, sem prestur um langa hríð. Þá segir hann frá menntaskólaárum sínum í Reykjavík.

Elsti framhaldsskólinn

Menntaskólinn í Reykjavík er elsti framhaldsskóli landsins. Hann á rætur að rekja til biskupsstólsins í Skálholti sem stofnaður var árið 1056. Skólinn var fluttur til Reykjavíkur árið 1786 í hús á Hólavöllum ofan Suðurgötu. Árið 1805 fékk skólinn inni á Bessastöðum og var starfræktur þar uns nýtt skólahús hafði verið reist í Reykjavík. Það var stærsta hús á landinu og þangað var skólinn fluttur haustið 1846. Hann nefndist Reykjavíkur lærði skóli, en frá 1937 heitir hann Menntaskólinn í Reykjavík.