[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is „Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og þegar þessi möguleiki bauðst þá var það aldrei spurning í mínum huga.

Handbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og þegar þessi möguleiki bauðst þá var það aldrei spurning í mínum huga. Ég er fullur tilhlökkunar að prófa nýtt land, læra nýtt tungumál og kynnast nýrri menningu,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, við Morgunblaðið í gær en hann mun spila með spænska meistaraliðinu Barcelona næstu tvö árin. Hann er annar Íslendingurinn sem spilar með liðinu en Viggó Sigurðsson varð spænskur meistari með því árið 1980.

Guðjón varð þýskur meistari með Kiel á dögunum en það var komið á hreint í vetur að hann mundi færa sig sunnar í álfuna þó ekkert hafi verið gefið út. „Það er svolítið síðan og komnir nokkrir mánuðir síðan ég skrifaði undir. Það var að þeirra ósk að ekkert var opinberað fyrr en núna og ég varð bara að halda mér saman. En um leið og þetta kom upp þá stökk ég á tækifærið,“ sagði Guðjón Valur. Hann viðurkennir að spænska deildin sé nokkuð veikari en sú þýska, en þvertekur fyrir að hafa verið að sækjast eftir minna álagi.

„Deildin er vissulega veikari, ég ætla ekkert að reyna að sannfæra fólk um að deildin sé jafn sterk og sú þýska. Ég reyni hins vegar alltaf að mæta til leiks með sama hugarfarið og reyni alltaf að gefa allt mitt, sama hver andstæðingurinn er. Það verða kannski aðeins færri leikir en liðið er í Meistaradeildinni og stefnir hátt þar. Barcelona-liðið er ógnarsterkt og væri klárlega í möguleika að vinna þýsku deildina. Það er líka ætlast til þess að ég standi mig og skili minni vinnu vel. Ég er ekki að fara í neitt sumarfrí.“

Sækist ekki eftir minna álagi

Guðjón Valur er 35 ára gamall og því farið að síga á seinni hlutann á ferlinum ef miðað er við aðra handknattleiksmenn. En Guðjón er enginn venjulegur leikmaður. „Ég vona að það verði ekki minna álag á mér. Það gefur þá bara meiri tíma til þess að æfa meira og halda mér heilum og góðum eins og ég hef verið síðustu árin. Ég þarf bara að aðlagast þeim aðstæðum sem fyrir liggja og gera það besta úr þeim. Ég vil alltaf spila næsta leik sama hvernig álagið er,“ sagði Guðjón Valur. Hann ætlar að lifa í augnablikinu á Spáni og er ekki farinn að hugsa of langt fram í tímann.

„Ég ætla fyrst og fremst að reyna að njóta þess að vera þarna og er ekkert farinn að hugsa lengra en þessi tvö ár. Ég veit ekki einu sinni hvernig það er að búa þarna eða hvort mér líki það yfirhöfuð. Það er því erfitt að taka ákvarðanir fram í tímann og ég ætla fyrst og fremst að njóta þess.“

Hann er nú staddur í Bosníu ásamt íslenska landsliðinu og mun leiða strákana okkar inn á völlinn gegn heimamönnum í kvöld. „Æfingar hafa gengið vel. Ferðalagið var reyndar hrikalega langt. Við vorum ekki komnir á hótelið fyrr en um miðnætti í gær [á fimmtudag] en við lögðum af stað um klukkan fimm um morguninn. Það þýðir hins vegar ekkert annað en að vera bjartsýnn,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson við Morgunblaðið.