Tengdadóttirin Lilja nefnist mynd Baltasars Samper frá 2007.
Tengdadóttirin Lilja nefnist mynd Baltasars Samper frá 2007.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Hugmyndin að sýningunni var að setja upp portrettsýningu í víðum skilningi, en það hefur ekki áður á Íslandi verið sett upp portrettsýning aðeins með 21.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Hugmyndin að sýningunni var að setja upp portrettsýningu í víðum skilningi, en það hefur ekki áður á Íslandi verið sett upp portrettsýning aðeins með 21. aldar verkum,“ segir Katrín Matthíasdóttir, verkefna- og aðstoðarsýningarstjóri sumarsýningar Listasafnsins á Akureyri sem opnuð verður í dag kl. 15. Sýningin ber yfirskriftina Íslensk samtíðarportrett – mannlýsingar á 21. öld og á henni gefur að líta hvernig 70 listamenn hafa glímt við hugmyndina um portrett frá síðustu aldamótum til dagsins í dag.

Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson, fráfarandi forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, og ber Katrín honum vel söguna. „Ég er honum mjög þakklát fyrir að hafa tekið vel í þessa hugmynd og verið til í að vinna að henni með mér,“ segir Katrín og tekur fram að slíkt sé ekki sjálfgefið þegar hugmyndin komi frá einhverjum sem sé ekki þekktur listfræðingur. Spurð um eigin bakgrunn segist Katrín sjálf hafa byrjað að mála fyrir sjö árum, en hún hefur numið við Myndlistarskólann í Kópavogi ásamt því að ljúka MA-prófi í þýsku sem erlent tungumál með norræn fræði og heimspeki sem aukagreinar frá Ludwig-Maximilian-háskólanum í Þýskalandi.

Aðspurð segist Katrín hafa fengið hugmyndina að sýningunni fyrir um þremur árum, en fyrst viðrað hana við Hannes fyrir hálfu öðru ári. „Ég tók þátt í samnorrænni sýningu undir yfirskriftinni Portræt Nu! árið 2011 og þar má segja að hugmyndin að sýningunni nú hafi kviknað, enda veitti það mér mikinn innblástur að sjá þá mergð af portrettum sem á sýningunni voru.“

Manneskjan í myndlist

Að sögn Katrínar felst hugmyndin um portrett í því að draga fram á listilegan hátt það sem öðrum er almennt hulið. „Að einskorða sig við portrett er ein leið til að skoða á hvaða hátt íslenskir listamenn fjalla um samtíðina,“ segir Katrín og bendir á að fígúratíf list og portrettlist hafi ekki notið mikils hljómgrunns hérlendis þar sem áherslan hafi fremur verið á hugmyndalist.

„Markmið okkar með sýningunni var því m.a. að vekja áhuga almennings á þessari tegund listar. Sökum þessa fannst okkur spennandi að hafa mikinn fjölda verka til að geta sýnt fjölbreytileikann og þá miklu grósku sem ríkir hérlendis,“ segir Katrín og viðurkennir fúslega að þar sem verkin séu á þriðja hundrað hangi þau víða þröngt. „En við leyfum þeim auðvitað að njóta sín, enda erum við með frábært upphengiteymi hér á safninu.“

Í samtali við Morgunblaðið leggur Katrín áherslu á að verkin á sýningunni séu portrett í víðum skilningi. „Þetta er ekki hefðbundið portrett eins og við þekkjum frá 19. og 20. öld þar sem þekktir einstaklingar eru mærðir. Hér er allur skalinn og allir miðlar undir,“ segir Katrín og bendir á að á sýningunni megi m.a. sjá olíumálverk, tússteikningar, vídeóverk, klippiverk, dauðagrímur, höggmyndir og ljósmyndir. „Manneskjan sem slík höfðar ávallt sterkt til listamanna og ég fagna því alltaf að sjá manneskjuna í myndlist.“

Spurð hvort áður ósýnd verk verði á sýningunni jánkar Katrín því og bendir á að verk a.m.k. tylftar listamanna á sýningunni hafi ekki komið fyrir sjónir almennings áður. Meðal þeirra listamanna og listhópa sem verk eiga á sýningunni má nefna Erró, Gjörningaklúbbinn, Ragnar Kjartansson, Hallgrím Helgason, Steinunni Þórarinsdóttur, Hugleik Dagsson, Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Ólöfu Nordal, Helga Þorgils Friðjónsson, Libiu Castro og Ólaf Ólafsson, Kristin Ingvarsson, Spessa, Stephen Lárus Stephen og Kristínu Gunnlaugsdóttur.

Þess má að lokum geta að sýningin stendur til 17. ágúst og er opin alla daga nema mánudaga milli kl. 10 og 17. Aðgangur er ókeypis.