Haukur Arnþórsson
Haukur Arnþórsson
Framkvæmd kosninga hér á landi og víðast annars staðar er mjög skiljanleg kjósendum, sem er mikill kostur.

Framkvæmd kosninga hér á landi og víðast annars staðar er mjög skiljanleg kjósendum, sem er mikill kostur. Kosningasvindl er nánast ómögulegt í stórum stíl svo leynt fari sem er þýðingarmikið til að kosningar haldi trúverðugleika sínum og kjósendur geti treyst því að vilji þeirra hafi náð fram að ganga.

Margt er gott á rafrænu formi en kosningar eru ekki þar á meðal. Í samtali Morgunblaðsins í gær við Hauk Arnþórsson, doktor í rafrænni stjórnsýslu, kemur fram að úttekt alþjóðlegs öryggisteymis á rafrænu kosningakerfi í Eistlandi sé „sennilega dauðadómur yfir þessu kerfi enda eru athugasemdirnar ansi harkalegar“.

Haukur segir að í úttektinni komi meðal annars fram að með tölvuárás sé hægt að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga með því að breyta atkvæðum án þess að nokkur ummerki sjáist. Hið alþjóðlega öryggisteymi mælir með að alfarið verði hætt að nota þetta kerfi í Eistlandi.

Haukur segir einnig að eftir að tölvunarfræðideild Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum hafi farið yfir rafrænt kerfi sem hannað var þar í landi hafi notkun þess verið bönnuð og telur hann að íslenska ríkið hafi enga burði til að gera nauðsynlegar öryggisúttektir á slíkum kerfum.

Vissulega getur tekið á taugarnar að bíða í fáeinar klukkustundir eftir niðurstöðu kosninga, en mun þungbærara væri að búa við efasemdir um úrslitin allt kjörtímabilið.