Það gefur ekki fullnægjandi mynd af tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðanna að blanda saman almennum lífeyrissjóðum og sjóðum með bakábyrgð ríkis og sveitarfélaga eins og gert er í ársskýrslu FME, að mati framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrissjóða...

Það gefur ekki fullnægjandi mynd af tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðanna að blanda saman almennum lífeyrissjóðum og sjóðum með bakábyrgð ríkis og sveitarfélaga eins og gert er í ársskýrslu FME, að mati framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrissjóða (LL).

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í vikunni er í árskýrslu FME vakin athygli á miklum halla á samtryggingardeildum lífeyrissjóða. Fram kemur að skuldbindingar í þeim hluta kerfisins eru mun hærri en eignir.

Tvö ólík kerfi

„Það eru tvö kerfi í landinu sem starfa hlið við hlið og eru byggð upp með ólíkum hætti,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri LL. „Annars vegar kerfi almennu lífeyrissjóðanna með fullri sjóðssöfnun, þar sem greitt er út í samræmi við eignir á hverjum tíma. Á þeim sjóðum liggur lögbundin skylda að hækka réttindi eða skerða þau ef misræmi eigna og skuldbindinga fara út fyrir ákveðin vikmörk.“

Verði halli á sjóðnum yfir 10% ber honum að skerða réttindi og að sama skapi ber að auka réttindi ef eignir fara 10% yfir skuldbindingar. Til sveiflujöfnunar má vera allt að 5% halli í 5 ár, en ef hann fer útfyrir það er skylt að grípa inn í. Þannig er komið í veg fyrir að það myndist varanlegur halli, að sögn Þóreyjar.

Réttindi í opinberum sjóðum ekki háð eignum

„Hitt kerfið er með bakábyrgð launagreiðanda og þar er lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins langstærstur, auk minni sjóða sveitarfélaga. Þeir eru ekki hugsaðir með þeim hætti að full sjóðssöfnun sé á bak við þá, heldur eru réttindi skilgreind fyrirfram og launagreiðandi ber ábyrgð á fjármögnuninni ef eignir hans duga ekki til. Þeir eru því að hluta til fjármagnaðir með eignum en ekki að fullu,“ segir Þórey.

Stóru hallatölurnar byggja á opinberu sjóðunum að sögn Þóreyjar. „Ef við skoðum almennu lífeyrissjóðina sem þurfa að fjármagna lífeyrisgreiðslur með þeim eignum sem eru til staðar á hverjum tíma, þá er óverulegur halli af þeim,“ segir Þórey.