Víkverji er kominn út úr skápnum sem slugsari: hann var að taka nagladekkin undan bílnum. Já, það er rosalegt að spæna upp malbikið á negldum dekkjum og það langt fram á sumar. Hann hugsar ekkert um umhverfið og annað fólk heldur eingöngu um sjálfan...

Víkverji er kominn út úr skápnum sem slugsari: hann var að taka nagladekkin undan bílnum. Já, það er rosalegt að spæna upp malbikið á negldum dekkjum og það langt fram á sumar. Hann hugsar ekkert um umhverfið og annað fólk heldur eingöngu um sjálfan sig.

Víkverji hefur enga afsökun fyrir þessum trassaskap aðra en þá að hann er slugsari. Í fyrstu og annarri atrennu var enginn tími laus á dekkjaverkstæðinu og þurfti því frá að hverfa. Samkvæmt skilgreiningu Íslenskrar orðabókar er það slórsöm manneskja. Það sem meira er þá er hann einnig: drollari, sluddi og slussari. Það segir Samheitaorðabókin honum að minnsta kosti. Slussari – það er prýðis-nafngift á Víkverja. Hver sem rekst á hann á göngu má kalla á eftir honum: Slussari!

En annars þykir Víkverja alltaf jafn gaman að leggja á bílastæðinu við vinnustað sinn. Kagginn sem Víkverji ekur er græn lítil dolla með ryðblettum. Það eru nokkrar ámóta fagurgrænar kerrur í sama aldursflokki og drossía Víkverja sem bíða þolinmóðar við vatnið rauða eftir réttmætum eigendum sem hlaupa inn í þær í lok vinnudags og spæna í burtu.

Ástæðan fyrir einskærri kátínu Víkverja í morgunsárið er sú að hann leitar uppi flottustu bílana á planinu og rennir gamla græn við hlið þeirra. Jú, ástæðan er sú einlæga trú Víkverja að eigendur margra milljóna króna bílanna hljóti að gleðjast yfir hlutskipti sínu að hafa slíkan grip til umráða, þegar rúmlega áratugargamall og lúinn skódi eyðir lunganum úr deginum við hlið þeirra. Samanburðurinn er fullkominn.

Annars ætlar Víkverji að nýta tækifærið og óska móður sinni til hamingju með daginn. Til hamingju með daginn, elsku mamma!