Elliði Kann svo sannarlega að gleðjast.
Elliði Kann svo sannarlega að gleðjast. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Einhverjir hafa verið að skammast yfir kosningasjónvarpi RÚV en sú sem þetta ritar fann þar ýmislegt við sitt hæfi.

Einhverjir hafa verið að skammast yfir kosningasjónvarpi RÚV en sú sem þetta ritar fann þar ýmislegt við sitt hæfi. Þarna var til dæmis viðtal við Jón Gnarr sem var bæði skemmtilegt og upplýsandi og svipmyndir af ferli hans í borgarstjórastóli komu manni í verulega gott skap – allavega þeim okkar sem þykir innilega vænt um Jón Gnarr, og við erum ansi mörg. Hápunktur kosningasjónvarpsins var þó útsending frá Vestmannaeyjum þar sem Elliði Vignisson fagnaði stórsigri. Gleði hans var svo smitandi að stutta stund breyttist ég í staðfastan sjálfstæðismann og rankaði ekki við mér fyrr en verðandi borgarstjóri í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, birtist yfirvegaður á skjánum. Gleðskapurinn hjá Elliða og félaga hans hlýtur að hafa verið besta partí á landinu þetta kvöld. Ég hef trú á gleðinni og kætinni og bæjarstjóri sem kann að gleðjast á þennan hátt er maður að mínu skapi.

Nú er annar laugardagur og engar kosningar en sól og blíða og kannski ekki margir sem sitja inni og horfa á sjónvarpið, en ef eitthvað getur haldið þeim þar þá er það stórmyndin Titanic sem RÚV sýnir í kvöld. Ást og dauði sem fær mann til að tárast.

Kolbrún Bergþórsdóttir