Adapter Kammerhópinn Adapter skipa Ingólfur Vilhjálmsson, Matthias Engler, Gunnhildur Einarsdóttir og Kristjana Helgadóttir.
Adapter Kammerhópinn Adapter skipa Ingólfur Vilhjálmsson, Matthias Engler, Gunnhildur Einarsdóttir og Kristjana Helgadóttir.
Frum-hátíðin, sú níunda í röðinni, verður haldin í kvöld á Kjarvalsstöðum.

Frum-hátíðin, sú níunda í röðinni, verður haldin í kvöld á Kjarvalsstöðum. Frum er nútímatónlistarhátíð sem kammerhópurinn Adapter stendur að og á hátíðinni í ár verða dregin fram í dagsljósið sjaldheyrð eða töpuð verk hinnar gömlu kynslóðar norrænna tónskálda og með þeim flutt ný eða fundin norræn verk frá deginum í dag, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Með því að stilla upp hlið við hlið tveimur tímabilum í sögu norrænnar tónlistar gefst hlustendum tækifæri til að bera saman og velta fyrir sér þróun norrænnar tónlistar. Gætu þá vaknað ýmsar spurningar, svo sem: Hvert er einkenni tónlistar frá Norðurlöndunum? Er hún að einhverju leyti frábrugðin tónlist annars staðar frá? Hvernig hefur hún þróast? Spurningar sem örva hlustandann til íhugunar um norræna og alþjóðlega menningu í dag,“ segir í tilkynningunni.

Megináhersla Frum-hátíðarinnar er að kynna meistaraverk nútímatónbókmenntanna fyrir tónlistarunnendum og þá verk sem hafa sett mark sitt á tónlistarsöguna en eru sjaldan flutt í tónleikahúsum Reykjavíkur. Á hátíðinni í ár verða flutt verk eftir tónskáldin Jouni Hirvelä frá Finnlandi, Bjørn Fongaard frá Noregi, Siegfried Naumann frá Svíþjóð, Þráin Hjálmarsson og Danina Gunnar Berg og Simon Loeffler. Finna má efnisskrána á vefsíðu Frum: frum-festival.com.

Adapter skipa Kristjana Helgadóttir flautuleikari, Ingólfur Vilhjálmsson sem leikur á klarínett, Gunnhildur Einarsdóttir hörpuleikari og Matthias Engler slagverksleikari. Adapter sérhæfir sig í flutningi samtímatónlistar og vinnur náið með ungum tónskáldum og leggur áherslu á að kynna þau verk 20. aldarinnar sem þegar eru talin til meistaraverka samtímatónbókmenntanna. Tónleikarnir hefjast kl 20 á Kjarvalsstöðum og er frítt inn fyrir 16 ára og yngri.