Ísland Náttúruleg mynd úr MODIS-myndavél NASA, tekin klukkan 13:05 í gærdag. Gervitunglin Terra og Aqua bera myndavélina.
Ísland Náttúruleg mynd úr MODIS-myndavél NASA, tekin klukkan 13:05 í gærdag. Gervitunglin Terra og Aqua bera myndavélina. — Ljósmynd/NASA
Gervitunglamynd af Íslandi sem var tekin úr MODIS-myndavél NASA klukkan 13:05 í gærdag sýnir vel hversu gott veður var á landinu. „Það er skemmtilegt að sjá á þessari mynd hvernig þokan kemur alveg inn að landinu en svo leysist hún bara upp.

Gervitunglamynd af Íslandi sem var tekin úr MODIS-myndavél NASA klukkan 13:05 í gærdag sýnir vel hversu gott veður var á landinu.

„Það er skemmtilegt að sjá á þessari mynd hvernig þokan kemur alveg inn að landinu en svo leysist hún bara upp. Skýin stoppa við ströndina,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Þetta er eins og við var að búast í þessum hita og hæga vindi, að það yrði þoka allsstaðar við ströndina en hlýrra innanlands. Þá má glögglega sjá snjóinn í fjöllum á Norður- og Austurlandi og á Vestfjörðum. Sunnanmegin við landið er gaman að sjá þörungablómann í hafinu, það er þetta ljósbláa,“ segir Birta Líf um myndina.

Heiðskírt var um mestallt land í gær en skýjabakki við austurströndina skyggði aðeins á sólu. Hitinn fór upp fyrir tuttugu stig á Suður- og Vesturlandi og hátt í það víða um land þó kaldara hafi verið sumstaðar við ströndina, til dæmis náði hitinn ekki tíu stigum við Húnaflóa og á Ólafsfirði og Hólmavík náði hann aldrei verulegum hæðum vegna þoku útifyrir og hafgolu.

Landsmenn geta sólað sig áfram því í dag má búast við svipuðu veðri um land allt og var í gær.

ingveldur@mbl.is