Stefanía Jónasdóttir
Stefanía Jónasdóttir
Frá Stefaníu Jónasdóttur: "„Ó Guð vors lands“, það hlýtur að verða næst á dagskrá menntaelítunnar að banna þjóðsönginn, það má varla mismuna með þessum eina þjóðsöng. Held að háskólar landsins þurfi að íhuga hvers konar menntun þeir ástunda og útskrifa."

„Ó Guð vors lands“, það hlýtur að verða næst á dagskrá menntaelítunnar að banna þjóðsönginn, það má varla mismuna með þessum eina þjóðsöng.

Held að háskólar landsins þurfi að íhuga hvers konar menntun þeir ástunda og útskrifa. Flest virðist þið mennta ykkur frá lífinu og veruleikanum. Það mætti alveg velja eftir gáfnaprófi til inngöngu í háskólana. Það er orðið svo, að ég má ekki segjast elska mitt land og mína þjóð, og vilja því hið besta og vernda það.

Þá er ég orðin rasisti, fasisti, þjóðernishyggjuöfgapúki, og svo er notað fína orðið „populismi“. Þið sem talið svona vitið ekki hvað þið eigið, landið okkar, og það ber að varast að kasta þessu fjöreggi fram og til baka í bjánahætti. Unga fólk, þið sem haldið að þið séuð svo miklir heimsborgarar, þið eigið að vita að grunnurinn að heimsborgaranum er heima fyrir. Elskið og virðið fyrst það sem þar er, og síðan heiminn. Viðtal við unga kjósendur í RÚV á kosningadagskvöldi, tvær konur og einn karl.

Hann hafði þó skoðanir en önnur daman sagði að „það gengi nú ekki að kjósa með móðurlífinu“, hlýtur að vera femínisti, en hin „o, þetta er svo leiðinlegt, það verður að poppa þetta upp“.

Einmitt, gera stjórnmál að leikskólaleik svo að þið náið að mynda ykkur skoðun. Það er víst í tísku að vera með kjánagang, en bara sorglegt. Reykvíkingar kusu Dag B. og hann mun sýna ykkur einræðistilburði. Með sér velur hann Björn B. og Halldór pírata, sem báðir eru úti á túni, en svo kemur rós Reykjavíkur, sjálf Sóley Tómasdóttir, sem að sjálfsögðu er ekki stjórntæk vegna fyrirlitningar og hroka sem hún sýnir Framsókn. Ekki eru rædd hennar kosningamál, allir á jötuna, ókeypis til skólamála, og skyndiáhyggjur af fátækum börnum. Hvar hefur hún verið síðustu ár? Að konur VG skyldu koma því á að brjóta mannréttindi nýfæddra barna með því að setja þau á stofnun strax að loknu fæðingarorlofi, það er til skammar. Hvar er tengingin við börnin sem þið gasprið um á hátíðisdögum?

Fyrirlitning VG og Samfylkingar á samferðafólki sínu í stjórnmálunum á sér engar málsbætur því enn er mál- og skoðanafrelsi og ef þið getið ekki virt hvert annað finnið ykkur þá aðra vinnu. Ekki smita þjóðfélagið af þessari illsku. Jóhanna Sigurðardóttir talar um siðferði Bjarna og Sigmundar, en sýndu nú aðgát, kona.

Rifjaðu upp með sjálfri þér þinn stjórnmálaferil. VG og Samfylking fara mikinn varðandi það að skilja ekki eftir skuldir til komandi kynslóða, en þetta sama fólk ætlar komandi kynslóðum að kljást við íslam. Skylda stjórnmálafólks er að vernda land og þjóð, en ekki að sýna af sér bjánahátt, – og hugsið til framtíðar. Kannski mun menntaelítan í framtíðinni syngja „Ég vil elska mitt land“ þegar hún hefur misst það. Og, já, Reykjavík er líka mín höfuðborg.

STEFANÍA JÓNASDÓTTIR,

Sauðárkróki.

Frá Stefaníu Jónasdóttur

Höf.: Stefaníu Jónasdóttur