Á handfærum Ólafur Helgi Ólafsson á Glað SH.
Á handfærum Ólafur Helgi Ólafsson á Glað SH. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Að óbreyttu laga- og regluverki er augljóst að það verður aldrei nema lítill hópur sem getur gert strandveiðar að lifibrauði á ársgrundvelli,“ skrifar Arthur Bogason, ritstjóri og fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda, í nýjasta tölublað Brimfaxa. Þar reiknar hann út mismuninn á tekjum og kostnaði við útgerð meðalbáts á strandveiðum og er niðurstaða hans að eftir standi rúmar 1,5 milljónir sem hreinar tekjur fyrir fjögurra mánaða vinnu eða um 385 þúsund á mánuði.

Arthur skrifar að í upphafi strandveiða 2009 hafi margir talið að ný gullæð hefði fundist og „þess voru mörg dæmi að menn reiknuðu sig í mikla velmegun“. Síðan hafi raunveruleikinn tekið við: „Hann sýndi það sem vanir menn vissu: það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Handfæraveiðar geta verið snúinn veiðiskapur og á alls ekki við alla.“

Mikill munur á olíukostnaði

Olíukostnaðar er ekki getið í greininni, en Arthur segir að hann sé mjög breytilegur eftir stærð báta og vélarafli. Hraðskreiðir bátar, sem sæki lengra, fiski oft meira, en eyði jafnframt mikilli olíu sem geti numið allt að 30% af aflaverðmæti. Aðrir fari sér hægar og sæki styttra, en þar geti olíukostnaður verið um 3%. Afkoman versnar sem auknum olíukostnaði nemur. Arthur gengur út frá því að einn rói á hverjum báti.

Í fyrra landaði alls 631 strandveiðibátur 25 tonnum eða minna. Í útreikningunum miðar Arthur við meðalbát sem kom með 10,4 tonn að landi og að verð fyrir aflann á fiskmörkuðum hafi að meðaltali verið 242 krónur fyrir kílóið án vsk. Aflaverðmæti meðalbátsins var samkvæmt þessu um 2,5 milljónir. 43 bátar komu hins vegar með meira en 25 tonn að landi og þar af var einn með yfir 40 tonn. Aflaverðmæti hans hefur verið um 10 milljónir króna.

Margir kostnaðarliðir og misstórir

Kostnaðarliðirnir eru margir og misstórir og leggjast sumir þeirra jafnt yfir alla línuna, önnur gjöld tengjast afla og bátastærð.

Arthur nefnir tryggingar, skoðunargjald, gjöld vegna strandveiðileyfis, skipagjald, vitagjald, árgjald vegna tilkynningaskyldu, skoðun á lyfjakistu, skoðun á björgunarbát og fylgihlutum, haffærisskírteini, VHF-talstöð, slökkvitæki, lögskráningu, legugjöld við flotbryggju í 12 mánuði og rafmagn á flotbryggju. Þessu til viðbótar kemur kostnaður vegna minni háttar viðhalds og veiðarfæra. Frá söluverði afla dragast einnig aflagjald, sölukostnaður, móttökugjald, ís, löndunarkostnaður og gjald vegna ólöglegs afla þegar farið er yfir hinn löglega skammt að ógleymdu veiðigjaldi.

Kostnaður við bátakaup er ekki inni í útreikningunum, en Arthur segir að verð á minni bátum hafi lækkað, sem trúlega sé merki um að meira raunsæi ráði för varðandi strandveiðar.