Hnefaleikar - undanúrslit
Hnefaleikar - undanúrslit — Morgunblaðið/Eva Björk
7. júní 1936 Hnefaleikameistaramót Íslands fór fram í fyrsta sinn. Þrír meistarar voru úr KR og tveir úr Ármanni. Íþróttin var bönnuð 1956 en áhugamannahnefaleikar leyfðir 2002. 7.

7. júní 1936

Hnefaleikameistaramót Íslands fór fram í fyrsta sinn. Þrír meistarar voru úr KR og tveir úr Ármanni. Íþróttin var bönnuð 1956 en áhugamannahnefaleikar leyfðir 2002.

7. júní 1951

Afhjúpað var minnismerki í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík um 212 breska hermenn sem féllu hér í síðari heimsstyrjöldinni.

7. júní 1998

Stór skriða féll úr austanverðum Lómagnúpi og yfir vegarslóða. Aflið var svo mikið að atburðurinn kom fram á jarðskjálftamælum í 150 kílómetra fjarlægð.

7. júní 2008

Vatnajökulsþjóðgarður var formlega opnaður. Hann er stærsti þjóðgarður Evrópu og nær yfir áttunda hluta landsins. Í samtali við Morgunblaðið sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra að garðurinn væri einstakur á heimsvísu.

7. júní 2008

Keppt var í fyrsta sinn í 100 kílómetra hlaupi hér á landi. Þátttakendur voru sextán. Sá sem kom fyrstur í mark, Neil Kapoor, hljóp á tæpum átta klukkustundum.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson