[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gerður Aagot Árnadóttir fæddist á Selfossi 7.6. 1964. „Ég á mínar fyrstu bernskuminningar þaðan en þeirra skýrust er upplifun mín sem lítils barns af því er Ölfusá flæddi yfir bakka sína.

Gerður Aagot Árnadóttir fæddist á Selfossi 7.6. 1964. „Ég á mínar fyrstu bernskuminningar þaðan en þeirra skýrust er upplifun mín sem lítils barns af því er Ölfusá flæddi yfir bakka sína. Ég flutti fjögurra ára til Reykjavíkur, bjó fyrst á Háaleitisbraut en ólst síðan upp í Fossvoginum. Á þeim tíma var byggð þar minni en nú er, hestar í haga, rófurækt og hænsnahús í nágrenninu. Krakkar á öllum aldri léku úti og það var oft mikið um að vera í götunni okkar.“

Starfsferill

Skólaganga Gerðar var í Ísaksskóla, Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla. Hún varð stúdent frá MH, fór síðan í læknisfræði við HÍ og lauk kandídatsprófi 1990. Hún hlaut sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum 1999 og hefur starfað síðan sem heimilislæknir í Garðabæ með eins árs hléi árið 2003 þegar hún vann á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Á árunum 2005-2013 var Gerður einnig í hlutastarfi hjá Landssamtökunum Þroskahjálp sem formaður þeirra samtaka. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu við HÍ á menntavísindasviði.

Gerður sat í stjórn og var formaður Kristilegra skólasamtaka á árunum 1981-1984, í stjórn Félags læknanema á námsárunum og síðan í stjórn Félags ungra lækna. Hún var stofnandi og formaður Breiðra brosa, var í stjórn og formaður Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla og hefur setið í fræðslunefnd Félags íslenskra heimilislækna og í stjórn Fræðslustofnunar lækna. Gerður hefur verið formaður stjórnar Fjölmenntar, símenntunar og þekkingarmiðstöðvar frá 2013. Gerður hefur gegnt trúnaðarstörfum og setið í fjölda nefnda tengdra málefnum fatlaðs fólks og hefur skrifað greinar um málefni fatlaðs fólks og heilbrigðismál.

Áhugamál

Gerður hefur áhuga á útivist og ferðalögum innanlands sem utanlands. „Ég ferðaðist um landið þvert og endilangt þegar börnin voru lítil enda fannst þeim gaman að vera í útilegum og undu sér vel á slíkum ferðum. Ég er núna að uppgötva landið á nýjan hátt á tveimur jafnfljótum í skemmtilegum félagsskap hjá Ferðafélaginu Útivist. Ég er áhugasöm um félagsmál og pólitík, einlægur jafnaðarmaður og tel okkur sem samfélag betur sett þegar við hugum að samhjálp og mannréttindum. Ég hef alla tíð tekið virkan þátt í félagsmálum og hef komið að réttindabaráttu fatlaðs fólks og fatlaðra barna frá því að sonur minn hóf skólagöngu. Þar hef ég kynnst afskaplega mörgu góðu fólki sem veit hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Hjarta mitt slær í réttindabaráttu fatlaðs fólks en í þeim geira er þörf fyrir öfluga baráttu fyrir jafnri stöðu fatlaðs fólks og ófatlaðs í okkar samfélagi og um allan heim.“

Fjölskylda

Maki Gerðar er Ragnar Ragnarsson, f. 9.4. 1962, bílstjóri. Foreldrar hans eru Halla Margrét Ottósdóttir, f. 21.11. 1928, d. 29.5. 2011, húsmóðir í Reykjavík, og Ragnar Sigurður Sigurðsson, f. 7.5. 1931, d. 6.2. 2007, leigubílstjóri í Reykjavík.

Fyrrverandi makar Gerðar eru Bergur Viðar Stefánsson, f. 5.5. 1963, læknir í Svíþjóð, og Alfons Sigurður Kristinsson, f. 1.3. 1957, slökkviliðsmaður í Kópavogi.

Börn Gerðar eru Árni Kristinn Alfonsson, f. 18.8. 1993, starfsmaður á Hæfingarstöðinni Fannborg í Kópavogi, og Sigríður Ása Alfonsdóttir, f. 18.8. 1995, nemi í MH og starfsmaður á heimili fyrir fatlaða í Kópavogi.

Stjúpbörn Gerðar eru Gunnhildur Anna Alfonsdóttir, f. 14.11. 1983, lögfræðingur. Maki hennar er Guðjón Einar Guðmundsson slökkviliðsmaður. Börn þeirra eru Tómas Snær, f. 2005, Anna Guðrún, f. 2007, og Birna María, f. 2010; Íris Hildur Ragnarsdóttir f. 2.10. 1983, starfsmaður í Lyngási. Maki hennar er Halldór Jóhannsson. Barn þeirra er Viktor Máni, f. 6.11. 2004; Óli Björn Ragnarsson, f. 22.1. 1991, starfsmaður á heimili fatlaðs fólks í Reykjavík; Georg Ragnarsson, f. 5.8. 1993, og Helena Þóra Ragnarsdóttir, f. 5.3. 1995.

Systkini Gerðar eru Elín Huld Árnadóttir, f. 5.7. 1965, endurskoðandi og forstöðumaður hjá Íslandsbanka, bús. í Reykjavík; Kristín Sif Árnadóttir, f. 3.3. 1969, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, og Stefán Baldur Árnason, f. 22. 12. 1972, vefstjóri hjá Össuri, bús. í Reykjavík.

Foreldrar Gerðar eru Aðalbjörg Árnadóttir, f. 17.1. 1939, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, og Árni Geir Stefánsson, f. 3.11. 1932, d. 16.4. 2006, lektor við Kennaraháskóla Íslands.