Vegagerðin hefur auglýst eftir þátttakendum í forvali vegna jarðganga undir Húsavíkurhöfða við Húsavík, ásamt byggingu tilheyrandi forskála og vega.

Vegagerðin hefur auglýst eftir þátttakendum í forvali vegna jarðganga undir Húsavíkurhöfða við Húsavík, ásamt byggingu tilheyrandi forskála og vega. Um er að ræða 11 metra breið, 940 metra löng jarðgöng í bergi, styrkingu ganga, rafbúnað þeirra, um 56 metra langa steinsteypta vegskála og um 1,8 kílómetra langa vegi.

Forvalsgögnum á að skila til Vegagerðarinnar í síðasta lagi þriðjudaginn 15. júlí nk. Forvalið er einnig auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Vegurinn frá Húsavíkurhöfn mun liggja að fyrirhuguðu iðnaðarsvæði á Bakka en þar er m.a. áformað að fyrirtækið PCC reisi kísilver. Upphaflega var ætlunin að vegurinn yrði grafinn í Húsavíkurhöfða utanverðan. Talsverður halli hefði orðið á þeim vegi, ekki síst upp af höfninni, og miklar bergskeringar.

Varð því niðurstaðan að hluti vegarins yrði í jarðgöngum. Jarðgöngin eru talin draga úr umhverfisraski og sjónmengun. Vegagerðin telur framkvæmdina hafa það lítil áhrif á umhverfið að ekki sé ástæða til að láta gera formlegt umhverfismat.

Kostnaður við verkið var í upphafi áætlaður um tveir milljarðar króna en hann mun verða meiri vegna þeirrar lausnar sem valin var.

sisi@mbl.is