Pétur Einarsson
Pétur Einarsson
Eftir Pétur Einarsson: "ECB hefur hins vegar ekki viljað skrá íslensku krónuna þar sem hún er ekki skiptanlegur gjaldmiðill erlendis."

Það var vakin athygli mín á því að það er ekki hægt að gera kröfu í dómsmáli erlendis í íslenskum krónum. Af hverju ekki? Jú vegna þess að íslenska krónan hefur ekkert skráð verðmæti – hún er ekki til. Þess vegna skrifaði ég seðlabankastjóra og spurðist fyrir um hvað ylli að krónan væri hvergi skráð – nema á Íslandi. Eftir fjöldamarga mánuði barst þetta svar:

„Sæll Pétur.

Fyrst af öllu vill Seðlabanki Íslands biðjast velvirðingar á því hve seint svör berast þér. Það er ekki á færi Seðlabanka Íslands að bæta úr þessu. Á Norðurlöndunum er sá háttur hafður á að gengi gjaldmiðla er skráð í gegnum sameiginlega skráningu Evrópska seðlabankans (ECB). ECB hefur hins vegar ekki viljað skrá íslensku krónuna þar sem hún er ekki skiptanlegur gjaldmiðill erlendis. Seðlabanki Íslands hefur verið í sambandi við ECB með það í huga að fá þessu breytt en ekki haft erindi sem erfiði.

Virðingarfyllst,

Seðlabanki Íslands.“

Ja, ég er steinhissa, ég hélt að ég byggi í alvörulandi. Hvað finnst þér, lesandi góður, er glóra í gjaldmiðli okkar eða fyrir hvern er íslenska krónan?

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Pétur Einarsson