Hreðavatnsskáli Ljóst er að skálinn tekur við fjölmörgum gestum í kvöld.
Hreðavatnsskáli Ljóst er að skálinn tekur við fjölmörgum gestum í kvöld. — Ljósmynd/Daníel Kjartan Jónsson
Óhætt er að segja að lifna muni yfir Hreðavatnsskála í kvöld en þá mun hljómsveitin Skítamórall leika fyrir dansi. Lítið hefur farið fyrir svokölluðum sveitaböllum undanfarin ár og flestir myndu eflaust segja að sú menning væri liðin undir lok.

Óhætt er að segja að lifna muni yfir Hreðavatnsskála í kvöld en þá mun hljómsveitin Skítamórall leika fyrir dansi. Lítið hefur farið fyrir svokölluðum sveitaböllum undanfarin ár og flestir myndu eflaust segja að sú menning væri liðin undir lok. Daníel Kjartan Jónsson, eigandi skálans, telur svo ekki vera. „Síður en svo, ef marka má þá stemningu sem við höfum fundið fyrir á samfélagsmiðlum,“ segir hann. „Við héldum ball í fyrra með Ingó og Veðurguðunum við mjög góðar undirtektir,“ segir Daníel en bætir við að ætlunin sé ekki að halda ball aðeins einu sinni á ári. „Við erum á tali við fleiri hljómsveitir og stefnum á að halda fleiri böll í sumar.“

Daníel tók við skálanum í byrjun árs 2013 og lagði mikla vinnu í að færa hann til fyrra horfs. Nú rekur hann bæði gisti- og veitingaþjónustu á staðnum. „Við þjónum auðvitað þeim sem staldra við og fá sér veganesti en okkur er líka kappsmál að bjóða upp á gómsætan mat og góða gistingu.“ Aðspurður hvort dansleikurinn muni ekki angra erlenda ferðalanga segist Daníel ekki óttast það. „Við höfum bara fengið jákvæð viðbrögð við ballinu, gestir okkar eru mjög forvitnir um þennan viðburð.“ sh@mbl.is