Fjögur á Spáni „Granada er æðisleg, mjög sérstök og gömul, hún hefur einstakan blæ yfir sér,“ segir afmælisbarn dagsins.
Fjögur á Spáni „Granada er æðisleg, mjög sérstök og gömul, hún hefur einstakan blæ yfir sér,“ segir afmælisbarn dagsins. — Ljósmynd/Ruth Sigurðardóttir
Lilja Björk Guðmundsdóttir fagnar í dag 31 árs afmæli sínu. Hún er boðin til brúðkaups vinkonu sinnar í dag. „Ég verð bara að fagna þar með mínum bestu vinkonum sem verður mjög gaman.

Lilja Björk Guðmundsdóttir fagnar í dag 31 árs afmæli sínu.

Hún er boðin til brúðkaups vinkonu sinnar í dag. „Ég verð bara að fagna þar með mínum bestu vinkonum sem verður mjög gaman. Hver veit nema ég fari kannski upp á svið og syngi fyrir hana,“ segir Lilja.

Lilja er búsett á Spáni ásamt manni sínum Jóni Arnóri Stefánssyni. Þau eiga tvö börn, Guðmund Nóel og Stefaníu Björk. Hún útskrifaðist með lögfræðigráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2009 og útskrifaðist með meistaragráðu í stjórnskipulegum Evrópurétti frá Háskólanum í Granada árið 2010.

„Granada er æðisleg, mjög sérstök og gömul, hún hefur einstakan blæ yfir sér,“ segir Lilja. Í sumar hyggst fjölskyldan dvelja á Íslandi og njóta sumarsins, en Jón Arnór lauk samningi sínum á Spáni í vor. „Nú er þetta dálítið í lausu lofti en þá er gott að nýta tækifærið og koma til Íslands að hitta vini sína og fjölskyldu.“

Eftirminnilegasta afmælisdaginn segir Lilja hafa átt sér stað í fyrra þegar hún hélt upp á þrítugsafmælið og bauð til sín gestum. Í lok teitinnar þegar gestirnir voru farnir fór hún beint á fæðingardeildina og fæddi þar dóttur sína. „Ég var sett á afmælisdaginn en hún leyfði mér að halda veisluna fyrst sem var fallegt af henni. Í staðinn fékk hún sinn eigin afmælisdag,“ segir Lilja. sh@mbl.is