Íþróttamenn komast yfirleitt ekki mikið lengra í sinni grein en að spila fyrir hönd Barcelona.
Íþróttamenn komast yfirleitt ekki mikið lengra í sinni grein en að spila fyrir hönd Barcelona. Í gær var loksins opinberað verst geymda leyndarmál ársins 2014 þegar forráðamenn Katalóníufélagsins staðfestu að þeir væru búnir að semja við einn af bestu handboltamönnum heims, Guðjón Val Sigurðsson.

Þetta lá fyrir strax í byrjun febrúar þegar ljóst varð að Guðjón yrði ekki hjá Kiel nema til vors. Hann yppti bara öxlum, mátti ekkert segja fyrr en viðkomandi félag myndi tilkynna samninginn formlega, og síðan eru liðnir rúmir fjórir mánuðir. Allir vissu samt að Barcelona væri áfangastaðurinn.

Við héldum eflaust flest að Guðjón hefði náð langþráðum toppi þegar hann gekk til liðs við Alfreð Gíslason hjá Kiel fyrir tveimur árum. Hann er nú einu sinni að verða 35 ára gamall og þýska stórveldið hlyti að vera flott endastöð á mögnuðum ferli. Ekki aldeilis. Guðjón Valur fetar nú í fótspor Viggós Sigurðssonar, eina íslenska handboltamannsins sem til þessa hefur keppt fyrir hönd Barcelona, og verður þar enn ein skrautfjöðrin í vægast sagt öflugum leikmannahópi á næsta tímabili.

Guðjón er farinn til Barcelona og Aron Pálmarsson er á leið til Veszprém. Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska landsliðið. Nú fara þeir báðir í heldur veikari deild, en spila með firnasterkum liðum sem væru þess vegna vís til að mætast í úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar næstu árin. Guðjón og Aron munu því fá kærkomnar hvíldir inná milli, í auðveldum deildaleikjum, á meðan lið þeirra munu setja allt púðrið í stóru leikina í Meistaradeildinni. Álagið verður minna og landsliðið mun njóta góðs af því.