Áfangi Sigtryggur (f.m.) ásamt skólafélögum sínum á útskrifardaginn. MIT er í Cambridge, steinsnar frá Boston.
Áfangi Sigtryggur (f.m.) ásamt skólafélögum sínum á útskrifardaginn. MIT er í Cambridge, steinsnar frá Boston.
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Suðurnesjamaðurinn Sigtryggur Kjartansson er kominn í hóp fyrirmenna eins og Jimmys Carter og Bills Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem eiga það sameiginlegt að hafa verið teknir inn í Phi Beta Kappa-heiðursfélagið. Sigtryggur útskrifaðist í gær úr grunnnámi í stærðfræði og tölvunarfræði við hinn virta bandaríska háskóla Massachusetts Institute of Technology (MIT) með fullkomna meðaleinkunn og komst því á lista félagsins sem er eitt það virtasta í Bandaríkjunum.

„Það gekk mjög vel. Ég var með A í öllu. Þetta er náttúrulega heiður og viðurkenning fyrir góðan námsferil en þetta er líka gott tengslanet,“ segir Sigtryggur um að hann hafi verið tekinn inn í heiðursfélagið.

Phi Beta Kappa var stofnað í frelsisstríðinu árið 1776 og er markmið þess að stuðla að frjálsri menntun og vísindum. Auk forsetanna fyrrverandi er fjöldi fræðimanna, Nóbelsverðlaunahafa og stjórnmálamanna í félaginu. Aðeins 10% af skólum landsins eiga aðild að félaginu og aðeins í mesta lagi 10% af úrskriftarnemum þeirra eru tekin inn í félagið.

Nám í Bandaríkjunum hefur verið draumur Sigtryggs frá blautu barnsbeini en hann hélt utan árið 2010 um leið og hann hafði lokið stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja sem dúx. Eftir að hann byrjaði að kynna sér skólana vestanhafs kom enginn annar til greina en MIT í Cambridge í Massachusetts-ríki.

„Ég ætlaði mér í stærðfræði- og tölvunarfræðinám og MIT er bestur í því. Svo líkaði mér mjög vel við menninguna í skólanum eftir að ég heimsótti hann. Það er mikið samstarf og engin samkeppni á milli nemenda. Allir sem eru í þessum skóla eru metnaðargjarnir og leggja hart að sér. Þetta er vinalegt fólk og vel gert,“ segir Sigtryggur.

Næst á dagskrá hjá Sigtryggi er að leggja land undir fót og flytja til Kaliforníu þar sem hann hefur fengið vinnu hjá tæknirisanum Oracle sem hugbúnaðarverkfræðingur.

„Ég verð að vinna í gagnagrunnsteyminu þeirra. Þetta eru mikið til rannsóknir á hvernig má bæta gagnagrunnana, gera þá fljótari og öruggari,“ segir hann.

Framhaldsnám er þó á stefnuskránni hjá Sigtryggi og þá í tölvunarfræði. Hann er þó ekki búinn að velta því frekar fyrir sér hvort það verði í MIT, Stanford eða öðrum háskóla.

Sigtryggur hefur eignast fjölda vina á fjórum árum sínum í MIT. Þó að hann flytji frá austurströnd Bandaríkjanna til vesturstrandarinnar er útskriftin þó ekki kveðjustund þar sem margir skólafélagar hans hafa einnig fengið vinnu í Sílikondalnum svonefnda í Kaliforníu.

„Ég verð ekkert einn. Ég er að fara búa með besta vini mínum og með fullt af félögum mínum í kringum mig,“ segir hann.