Kjartan Kjartansson Ómar Friðriksson Frá því að lota kjarasamninga hófst síðasta haust á almenna og opinbera vinnumarkaðinum, hafa verið gerðir hátt í 150 kjarasamningar, bæði með og án milligöngu ríkissáttasemjara.

Kjartan Kjartansson

Ómar Friðriksson

Frá því að lota kjarasamninga hófst síðasta haust á almenna og opinbera vinnumarkaðinum, hafa verið gerðir hátt í 150 kjarasamningar, bæði með og án milligöngu ríkissáttasemjara.

Að sögn Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, má ætla að búið sé að semja við 98–99% alls vinnumarkaðarins, þ.e. þeirra sem voru á annað borð með lausa samninga.

„Langstærsti hluti þessara samninga er innan þess ramma sem lagt var upp með ef litið er á fjölda launamanna. Við einsettum okkur að kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga væru innan við 4% á ári til þess að valda ekki verðbólgu,“ segir Þorsteinn. Verðbólgan hefur verið lítil að undanförnu og segir Þorsteinn ýmislegt benda til þess að hún fari ekki yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans á næstu mánuðum. ,,Stærsta áskorunin fram á veginn er næsta samningalota með ASÍ, sem hefur lýst því yfir að þetta hafi mistekist en við erum ekki sammála þeirri túlkun. Um það verður rætt þegar næsta lota hefst fyrir alvöru,“ segir hann.

„Þetta er með meira móti“

Í fyrra var tólf málum skotið til Ríkissáttasemjara en frá áramótum hafa 40 mál verið skráð hjá embættinu. „Við höfum ekki verið atvinnulaus. Það er alveg á hreinu. Það má segja sem svo að þetta er með meira móti. Í því felast engar ýkjur,“ segir Magnús Pétursson ríkissáttasemjari.

Annríkið í gerð kjarasamninga helgaðist af því að stutt leið á milli þess að samningar á bæði almenna og opinbera markaðnum runnu út. Samningur var gerður fyrir verulega stóran hluta almenna markaðarins 21. desember en aðeins hluti þeirra félaga sem áttu aðild að honum samþykkti hann. Janúarmánuður var afar annasamur þegar reynt var að semja að nýju fyrir þessi félög og beint í kjölfarið tóku við viðræður á opinbera markaðnum. Deilumálunum er nú farið að fækka en á meðal þeirra sem enn eiga eftir að semja eru leikskólakennarar, flugvirkjar og skólastjórnendur í grunnskólunum.