Jóhann Magnússon fæddist í Efri-Drápuhlíð í Helgafellssveit 8. apríl 1918. Hann lést 2. júní 2014 á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum.

Foreldrar hans voru Ásthildur Jónasdóttir, f. á Helgafelli í Helgafellssveit á Snæfellsnesi 10.11. 1888, d. 7.12. 1968, og Magnús Jóhannsson, f. í Innri-Drápuhlíð í Helgafellssveit 6.12. 1887, d. 21.1. 1982. Þau fluttust búferlum vestan af Snæfellsnesi árið 1923 og hófu búskap á Uppsölum 1924. Jóhann var næstelstur þrettán systkina en hin eru Þormóður Helgfell, f. 1917, lést í bernsku, Ingveldur, f. 1919, látin, Þormóður, f. 1920, lést í bernsku, Matthildur, f. 1922, Ásmundur, f. 1924, Þórsteinn, f. 1925, látinn, Þórleif Steinunn, f. 1926, látin, Jóhanna, f. 1927, látin, Jónas Helgfell, f. 1928, látinn, Ingibjörg og Ástríður, f. 1929, létust í bernsku, Ástráður, f. 1930, látinn.

Jóhann kvæntist 24.7. 1948 Guðlaugu Þórhallsdóttur, f. 1.2. 1918, frá Breiðavaði í Eiðaþinghá. Hún lést 10.12. 2001. Þau eignuðust fjóra syni. Þeir eru: 1) Jónas Þór, tæknifulltrúi á Egilsstöðum, f. 11.7. 1949, kvæntur Öldu Hrafnkelsdóttur skrifstofustjóra. 2) Magnús, yfirverkstjóri, breiðavaði, f. 4.9. 1952, kona hans er Vigdís Alda Guðbrandsdóttir flokksstjóri og eiga þau fjórar dætur. 3) Ragnar, framkvæmdastjóri í Reykjavík, f. 23.9. 1953, kona hans er Helga Margrét Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri og eiga þau fjögur börn. 4) Jóhann Gísli, bóndi á Breiðavaði, f. 5.4. 1960, kvæntur Ólöfu Ólafsdóttur bónda og eiga þau fjórar dætur. Barnabarnabörnin eru ellefu.

Jóhann fluttist fimm ára gamall með foreldrum sínum og tveimur systkinum austur á Fljótsdalshérað þar sem þau hófu búskap á Uppsölum í Eiðaþinghá. Jóhann fór í Eiða til Ásmundar Guðmundssonar og Steinunnar Magnúsdóttur, vinafólks Magnúsar og Ásthildar, þar sem hann dvaldist í fimm ár en fluttist síðan til foreldra sinna í Uppsali. Jóhann gekk í farskóla í Eiðaþinghá og síðar í Alþýðuskólann á Eiðum og lauk þaðan tveggja vetra námi. Jóhann bjó með foreldrum sínum á Uppsölum þar til hann hóf búskap á Breiðavaði. Jóhann og Guðlaug bjuggu öll sín búskaparár á Breiðavaði, fyrstu árin í samstarfi við Þórhall, föður Guðlaugar, og seinni árin félagsbúi með syni sínum Jóhanni Gísla Jóhannssyni og konu hans Ólöfu Ólafsdóttur. Jóhann var póstur á árunum 1948-1956. Árið 1995 fluttu Jóhann og Guðlaug í þjónustuíbúð á Egilsstöðum þar sem hann bjó til dauðadags.

Á yngri árum stundaði Jóhann íþróttir, sérstaklega knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Spyrni, var virkur í mörgum félögum svo sem Samvirkjafélagi Eiðaþinghár, Lionsklúbbnum Múla og var einn af stofnendum Hestamannafélagsins Freyfaxa. Einnig hafði hann ánægju af dansi og söng og tók þátt í karlakórum, kirkjukór Eiðaþinghár og á síðustu árum kórstarfi eldri borgara.

Útför Jóhanns fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 7. júní 2014, kl. 14.

Elsku afi. Þær voru margar ferðirnar sem þú fórst með okkur stelpurnar í sunnudagaskólann í Eiðakirkju.

Þegar þú varst að bóna bílinn þinn gátum við Eyrún nú stundum sníkt hjá þér smábón til þess að bóna hjólin okkar. En stundum þurftum við að þurrka innan úr bílnum til að borga fyrir það.

Ég man hvað mér fannst gaman að fá að færa þér nesti niður á tún í heyskap og þegar þú treystir okkur frænkunum fyrir því að sækja kindurnar út á tún.

Fötin þín fengum við að nota í leikritin okkar en þurftum þó að fara vel með þau. Opal stóð vaktina í efri skápnum eða jakkavasanum og fengum við stundum að gæða okkur á því.

Minningarnar eru margar úr sveitinni og man ég líka eftir því þegar við Eyrún njósnuðum um þig góðan part úr degi. Ástæðan var sú að við ætluðum að skrifa frétt um þig í tímaritið okkar. Þú þóttist aldrei taka eftir okkur en vissir örugglega af okkur á eftir þér.

Félagsskapur var þér mikilvægur og ekki hægt að minnast þín án þess að hugsa um brids og dans og þið amma voruð dugleg að skreppa af bæ, þ.e. ef ekki voru gestir hjá ykkur.

Ég man líka hvað ég samgladdist þér þegar þú sagðir mér að nú værir þú búinn að eignast vinkonu og áttir þá að sjálfsögðu við hana Jónu þína.

Já, það er ekki sjálfgefið að vera hress og kátur í svona mörg ár eins og þú. En nú er tíminn þinn liðinn og það er alltaf jafnsárt að kveðja. En ég hugga mig við það að þú varst tilbúinn, að eigin sögn, og hefðir ekki viljað fleiri daga eins og undanfarna viku.

Elsku afi, nú aðstoðar þú ömmu við að fylgjast með okkur og leiðbeina okkur á milli þess sem þið dansið og takið í spil.

Takk fyrir allt. Guð geymi þig.

Drífa Magnúsdóttir.

„Lækkar lífdaga sól

löng er orðin mín ferð.“

Þetta er upphaf á fallegu versi eftir breiðfirsku skáldkonuna Herdísi Andrésdóttur, en þessar línur eiga vel við í minningargrein um Jóhann Magnússon. Hann byrjaði ævi sína við Breiðafjörð en lagði fljótlega í langferð með fjölskyldu sinni alla leið austur á Hérað. Einnig var ævileiðin hans löng, 96 ár. Ekki er hægt að tala um ótímabært andlát þegar öldungur kveður en það var þó ósvikinn tregi og söknuður sem fylgdi því í morgun að frétta að vinur okkar og frændi, Jóhann á Breiðavaði, væri látinn. Frá því að við hittum hann fyrst, þegar við komum ungt fólk austur á Hérað, hefur hann alla tíð sýnt okkur svo mikla hlýju, áhuga og frændsemi, meira en nokkur utan nánasta skylduliðs. Það eru mikil forréttindi og guðsgjöf að fæðast með svo glaða lund og njóta lífsins til hinsta dags að heitið gat eins og Jóhann. Eitt sinn spurðum við hann hvort hann hefði alla tíð verið svona glaður og hress. Hann neitaði því, sagðist hafa verið dapur sem barn og liðið fyrir að vera sendur í fóstur, samt á úrvals heimili. Söknuðurinn var svo sár, að fara frá foreldrum og systkinum. Meðfædd einlægni hjálpaði honum að tala um þetta á gamals aldri og gerði okkur auðvelt að skilja hvar mestu verðmætin eru í lífi fólks.

Breiðavað, það fallega býli með útsýni yfir Héraðið, yljar í minningunni. Við vorum hálfgerðir heimagangar þar, þar var gott að koma og njóta góðra stunda með góðu fólki. Það var auðna Jóhanns að kvænast heimasætunni á Breiðavaði, Guðlaugu Þórhallsdóttur, sem reyndist honum góður lífsförunautur. Þar bjuggu þau myndarbúi, þar varð ævistarf þeirra. Auk þess var Jóhann lengi sveitapóstur, sem veitti honum tækifæri til samskipta við fólk og að fylgjast með því sem var að gerast. Hann var léttur á fæti og stutt í glensið, þannig var hann allt til hins síðasta. Hann hafði einstakan áhuga á að spila og dansa, var þar enginn viðvaningur og dró ekki af sér fyrr en þrekið fór að dvína.

Þau hjón Guðlaug og Jóhann eignuðust fjóra syni, sem hann kallaði strákana sína. Hann var stoltur af þeim og ekki síður tengdadætrum þegar þær komu til sögunnar og barnabörnunum.

Jóhann gekk þannig frá málum þegar hann hætti búskap að afkomendur hans heldu áfram búskap á Breiðavaði. Það var einlæg ósk hans enda naut hann þess að stinga þar við stafni, stundum daglega. Það var hans heima.

Nú seinni ár höfum við notið margra góðra samverustunda með Jóhanni, en hann var duglegur að koma til Reykjavíkur og kom þá ævinlega við hjá okkur í Mosfellsbæ. Hafi hann hjartans þökk fyrir tryggðina. Hann var svo sem ekki að slóra lengi, ákafinn var enn fyrir hendi. Þiggja matarbita, helst siginn fisk, faðmlög og kossar og drífa sig í heimsókn eða spil. Fólk um áttrætt, eins og við, fylltist auðvitað gleði og bjartsýni yfir svona glöðum gesti, sem var kominn vel yfir nírætt.

Fyrir tveimur árum gerðum við okkur ferð austur og áttum með honum nokkra yndislega daga, enda ferðin gerð vegna hans. Þeir dagar og fleiri sem við nutum með honum og vinkonu hans gleymast ekki.

Við erum þakklát fyrir góða vináttu og einstaka tryggð. Óskum við fjölskyldu hans alls góðs um leið og við sendum samúðarkveðjur.

María S. Gísladóttir,

Leifur Kr. Jóhannesson.