Allir fundnir sekir fyrir fíkniefnabrot.
Allir fundnir sekir fyrir fíkniefnabrot.
Dómstóll í héraðinu Hoa Binh í norðurhluta Víetnam hefur dæmt sex fíkniefnasmyglara til dauða en mennirnir voru á sínum tíma handteknir ásamt nítján öðrum, grunaðir um að hafa flutt mikið magn fíkniefna milli Hanoi og norðurhéraða landsins.

Dómstóll í héraðinu Hoa Binh í norðurhluta Víetnam hefur dæmt sex fíkniefnasmyglara til dauða en mennirnir voru á sínum tíma handteknir ásamt nítján öðrum, grunaðir um að hafa flutt mikið magn fíkniefna milli Hanoi og norðurhéraða landsins.

Réttarhöldin yfir mönnunum tóku um tvær vikur og voru allir hinir ákærðu fundnir sekir um að hafa flutt 620 kg af heróíni og 1.400 alsælutöflur á milli staða. Auk þeirra sex sem dæmdir voru til dauða voru sjö dæmdir í lífstíðarfangelsi og 12 dæmdir í 12 til 20 ára fangelsi.

Yfir 700 sitja á dauðadeild

Mjög ströng viðurlög eru í Víetnam við fíkniefnabrotum en samkvæmt fíkniefnalöggjöf þar í landi er hægt að dæma alla til dauða sem hafa í fórum sínum 600 gr eða meira af heróíni eða 20 kg eða meira af ópíum. Samkvæmt AFP-fréttaveitunni bíða nú yfir 700 fangar aftöku fyrir fíkniefnabrot í Víetnam. Slök landamæravarsla að undanförnu er sögð hafa gert Víetnam að ákjósanlegum markaði fyrir fíkniefni auk þess sem landið hefur lengi verið notað af glæpamönnum til þess að dreifa fíkniefnum frá svokölluðum „gullnum þríhyrningi,“ sem er á landamærum Laos, Taílands og Myanmar þar sem mikil fíkniefnaframleiðsla fer fram. Þá hafa fíkniefni einnig verið flutt í gegnum Víetnam frá Kína til frekari dreifingar.