Erla Björgvinsdóttir fæddist á Fáskrúðsfirði 26. janúar 1928. Hún lést á heimili sínu fimmtudaginn 22. maí 2014. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Sveinbjörn Guðmundsson raffræðingur, fæddur 1. október 1926. Foreldrar hennar voru Björgvin Benediktsson og Valborg Árnadóttir. Erla var elst þriggja systra, Oddnýjar Björgvinsdóttur, f. 4. mars 1929, og Guðrúnar Helgu, f. 13. september 1930, báðar eru látnar. Uppeldissystir Erlu er Valborg Guðrún, fædd 14. september 1947. Erla á eina dóttur, Aðalbjörgu Vilhjálmsdóttur, fædda 14. maí 1948, eiginmaður hennar er Snorri Hlöðversson, f. 13. maí 1944, og þeirra dætur eru Erla Snorradóttir, f. 22. apríl 1972, maki hennar er Ragnar Ómarsson, f. 4. júlí 1971, og börn þeirra eru María Lív Ragnarsdóttir, f. 17. september 1998, og Oliver Snorri Ragnarsson, f. 1. október 2007. Ingibjörg Snorradóttir, f. 12. maí 1973, gift Leifi Heiðarssyni, f. 27. mars 1968, börn þeirra eru Karen Björnsdóttir, f. 22. júlí 1996, Berglind Rós Leifsdóttir, f. 8. mars 1996, Tinna Karen Leifsdóttir, f. 3. júní 1998, Aron Már Leifsson, f. 21. október 2004, og Kolbrún Leifsdóttir, f. 21. mars 2010. Erla starfaði sem talsímavörður hjá Símanum, fyrst á Fáskrúðsfirði og síðar á Egilsstöðum, frá 1948 til 1990, með hléum þó.

Útför Erlu fór fram frá Egilsstaðakirkju 30 maí 2014.

Ó, mamma mín, nú leiðir skilja að sinni,

og sorgartárin falla mér á kinn,

en hlýjan mild af heitri ástúð þinni,

hún mýkir harm og sefar söknuðinn.

Í mínum huga mynd þín skærast ljómar,

og minningin í sálu fegurst ómar.

Þú móðir kær þér aldrei skal ég gleyma,

þinn andi fylgi mér á lífsins strönd.

Ég vil í hjarta heilræðin þín geyma

og halda fast í Drottins styrku hönd.

Með huga klökkum kveð ég góða móður.

Ó, mamma mín, þú lífs míns stærsti sjóður.

(Árni Gunnlaugsson)

Þín dóttir,

Aðalbjörg

Vilhjálmsdóttir.

Elsku hjartans amma okkar.

Það er margs að minnast, og finnst okkur þetta fallega ljóð segja allt það sem hæfir þér elsku amma.

Hér að hinstu leiðarlokum

ljúf og fögur minning skín.

Elskulega amma góða

um hin mörgu gæði þín.

Allt frá fyrstu æskudögum

áttum skjól í faðmi þér.

Hjörtun ungu ástúð vafðir

okkur gjöf sú dýrmæt er.

Hvar sem okkar leiðir liggja

lýsa göfug áhrif þín.

Eins og geisli á okkar brautum

amma góð, þótt hverfir sýn.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki

góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku amma, hafðu þökk fyrir allt og allt sem þú hefur gert fyrir okkur og okkar fjölskyldur, við söknum þín sárt og ljúfu minningarnar lifa.

Þínar elskandi dótturdætur,

Erla, Ingibjörg og fjölskyldur.

Hönd þín snerti

sálu okkar

Fótspor þín liggja

um líf okkar allt.

(Úr Gleym-mér-ey 1989.)

Elsku Erla frænka, nú kveð ég þig og vona að þú haldir áfram að láta þér líða vel.

Mér finnst það ómetanlegt að hafa fengið að vera hluti af þínu lífi öll þessi ár. Fyrstu kynni mín af þér sem ég man eftir er þegar ég var í kringum 4 ára og kom fyrsta sumarið mitt til ykkar Sveinbjörns að Hörgsási 2 og var það eitt af mörgum sumrum. Sumrin hjá ykkur voru alltaf skemmtileg, enda sótti ég í það að vera hjá ykkur.

Svo þegar ég fór fyrst í Menntaskólann á Egilsstöðum fannst þér ekki annað koma til greina en að ég byggi hjá ykkur Sveinbirni sem ég og gerði þessa einu önn sem ég var þar.

Þegar börnin mín fæddust þá varst þú þeim svo góð og sýndir þeim sömu ástúð og þú sýndir mér.

Þegar við töluðum saman í síma sem gerðist nú ansi oft, urðum við að hafa góðan tíma því yfirleitt voru þau símtöl ekki stutt.

Þú varst róleg og yfirveguð að eðlisfari, hafðir góða nærveru og vildir allt fyrir alla gera.

Bless, elsku Erla mín, minningin um þig lifir og mun ég geyma hana í brjósti mér.

Hið bjarta ljós sem berst til mín

með blessun sendi heim til þín

og með því kveðju kæra.

Megi það líkna og lækna þá

sem lífið kærleiksríka þrá.

Gleði og frið þeim færa

(Guðm. Ingi)

Þín frænka,

Jóhanna Kristín

Hauksdóttir.