Kristján Hall
Kristján Hall
Eftir Kristján Hall: "Vinstriflokkarnir neita að hlíta þessum úrskurði fólksins."

Svangur maður er auðmjúkur, hlýðinn og ljúfur í taumi. Þessi staðreynd var fram að síðustu kosningum stýritæki stjórnenda þessa lands. Hungrið og fátæktin hefur ásamt lyginni verið það afl sem leitt hefur alþýðuna til verka og loforð um eitthvað betra, sem fyrir fram hefur verið ákveðið að svíkja, hafa verið hvatinn í baráttu fólksins við vindinn.

Mahatma Gandhi sagði: „Fátæktin er versta birtingarmynd þrælahaldsins.“ Ekki er hægt að orða betur þennan hræðilega sannleika, né útskýra. Þegar Íslendingar tóku við versluninni af Dönum varð engin breyting á eðli hennar, og engir peningar fóru í umferð meðal almennings. Það varð ekki fyrr en með síldinni að farið var að greiða laun í peningum í stað inneignarreiknings. Það kostaði hundrað ára einokunarverslun áður en yfir lauk, það er að segja ef því er lokið.

Í fimmtíu ár hef ég fylgst með verkalýðshreyfingunni „berjast“ fyrir hækkun lægstu launa. Aldrei verður sagt að sigur hafi unnist, en stóru orðin hefur ekki vantað og loforðin til fátæklinganna, sem nú eru tíundi hluti þjóðarinnar, eru enn hástemmd og verða um framtíð eina næringin sem fólkið og verkalýðshreyfingin nærast á. Leiðtogarnir vita það öllum betur að ef kjörin batna og fólkið fær málungi matar rýrna völd þeirra í réttu hlutfalli.

Það kom því úr hörðustu átt þegar hundruðum milljarða hafði verið varið til lækkunar skulda gjaldþrota fjárfestingarfélaga að ný ríkisstjórn ákvað að leiðrétta hlut almennings vegna hækkunar lána, sem varð vegna gengisbreytingar í bankakreppunni samfara launalækkun. Vinstriöflin gjörsamlega trylltust og lokin fuku af öskutunnunum. Átti nú að fara að gefa fólkinu að éta? Átti að leyfa fólki sem ekkert kann með peninga að fara að verða bjargálna? Þvílík svívirða! Hvernig á svo að stýra þessum lýð?

Fólkið í þessu landi valdi sér stefnu í síðustu kosningum. Það felldi þáverandi stjórnarflokka frá völdum og hafnaði því að aðeins fjármálafyrirtæki ættu lífsvon í þessu landi. Vinstriflokkarnir neita að hlíta þessum úrskurði fólksins, og öllum þeim skít sem kringum þá er, og hann virðist vera í töluverðum mæli, er nú kastað á þá sem þjóðin kaus fyrir ári . Þeir vita sem er að fólk sem á fyrir mat lætur ekki vel í taumi, jafnvel þótt kjaftmélin séu með göddum.

Höfundur er eftirlaunaþegi.

Höf.: Kristján Hall