[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Gert er ráð fyrir að landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna skili tillögum í september um ytri mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna á Reykjaneshrygg og í Ægisdjúpi.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Gert er ráð fyrir að landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna skili tillögum í september um ytri mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna á Reykjaneshrygg og í Ægisdjúpi. Samkvæmt ákvæðum hafréttarsamningsins getur Ísland í framhaldi af því ákvarðað ytri mörkin á grundvelli tillagna nefndarinnar.

Ísland skilaði ítarlegri greinargerð til landgrunnsnefndarinnar 2009, en hún hafði áður verið undirbúin með umfangsmiklum mælingum á íslenska landgrunninu. Greinargerðin náði annars vegar til Reykjaneshryggjar og hins vegar til Ægisdjúps. Hún náði hins vegar ekki til Hatton Rockall-svæðisins sem Bretland, Írland og Danmörk/Færeyjar gera tilkall til, auk Íslands, og er því umdeilt.

Sendinefnd Íslands, undir forystu Tómasar H. Heiðar, þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins, hefur undanfarið ár fundað með undirnefnd landgrunnsnefndarinnar sem skipuð var sérstaklega til að fjalla um greinargerð Íslands. Að sögn Tómasar gengu þessir fundir vel en þeim lauk nýverið. Í framhaldi af því skilaði undirnefndin, sem skipuð er sjö sérfræðingum, tillögum til landgrunnsnefndarinnar um ytri mörk landgrunns Íslands á umræddum svæðum utan 200 sjómílna en þær eru trúnaðarmál. Landgrunnsnefndin, sem skipuð er 21 sérfræðingi, tekur málið fyrir á fundi sínum í júlí-september.

Miklir hagsmunir

Að sögn Tómasar eru miklir hagsmunir tengdir hafsbotnsréttindum á þeim tveimur svæðum sem greinargerðin nær til, einkum á Reykjaneshrygg. Fastlega sé gert ráð fyrir því að mikinn jarðhita sé þar að finna sem nýta megi í framtíðinni en einnig kunni að leynast þar verðmætir málmar sem falla gjarnan til á hitasvæðum. Tómas segir enn tiltölulega lítið vitað um auðlindir á hafsbotninum en í ljósi framtíðarhagsmuna sé mikilvægt að öðlast yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum.

Auk Tómasar áttu sæti í sendinefndinni þeir Sigvaldi Thordarson, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, og Birgir Hrafn Búason, lögfræðingur á skrifstofu þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins.

Kosið í Hafréttardómstólinn

Á miðvikudag í næstu viku fara fram í New York kosningar dómara í sjö af 21 sæti í Hafréttardómstólnum sem hefur aðsetur í Hamborg. Meðal annars verður kosið um eitt sæti sem tilheyrir hópi Vesturlanda og er Tómas H. Heiðar þar í framboði af hálfu Íslands og hinna norrænu ríkjanna. Keppinautur hans um sætið er Helmut Türk frá Austurríki sem hefur gegnt stöðu dómara við Hafréttardómstólinn undanfarin níu ár. Hann sækist eftir endurkjöri og er að þessu sinni tilnefndur af Möltu.

Tómas kveðst hóflega bjartsýnn á að ná kjöri í kosningunum í næstu viku þótt aldrei sé á vísan að róa í kosningum. „Ég hef tekið virkan þátt í samningaviðræðum um hafréttarmál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna undanfarna tvo áratugi, er vel kynntur þar og Ísland hefur mjög gott orðspor á þessu sviði. Fastanefnd Íslands í New York hefur unnið mjög gott starf við kynningu á framboðinu á undanförnum mánuðum og við finnum fyrir góðum stuðningi,“ segir Tómas. Kosningarnar fara fram á fundi aðildarríkja hafréttarsamningsins sem eru 166 að tölu.