Farþegum Icelandair í millilandaflugi heldur áfram að fjölga, en þeir voru 14% fleiri í maí en á sama tíma árið áður. Farþegum í innanlandsflugi heldur aftur á móti áfram að fækka .

Farþegum Icelandair í millilandaflugi heldur áfram að fjölga, en þeir voru 14% fleiri í maí en á sama tíma árið áður. Farþegum í innanlandsflugi heldur aftur á móti áfram að fækka . Herbergjanýting félagsins jókst um átta prósentustig milli ára, segir í tilkynningu.

Í maí flutti félagið 219 þúsund farþega í millilandaflugi og var framboðsaukning í sætiskílómetrum um 18%. Sætanýting var 77,1% og dróst saman um 1,6 prósentustig á milli ára. Fella þurfti niður 92 ferðir og breyta um 12 þúsund bókunum vegna aðgerða flugmanna í mánuðinum.

Farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru um 24 þúsund í maí, það er fækkun um 5% á milli ára. Framboð félagsins í maí var dregið saman um 5% samanborið við fyrra ár. Sætanýting nam 70,8% og dróst saman um 0,7 prósentustig á milli ára.

Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 38% á milli ára. Fraktflutningar í áætlunarflugi drógust saman um 5% frá því á síðasta ári, má rekja það til aðgerða flugmanna. Seldum gistinóttum á hótelum félagsins fjölgaði um 12% miðað við maí 2013. Herbergjanýting var 80,1% en hún nam 72,1% í maí í fyrra.