Í starfi Hjúkrunarfræðingurinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi.
Í starfi Hjúkrunarfræðingurinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi. — Morgunblaðið/Golli
Andri Karl andri@mbl.is Hjúkrunarfræðingurinn sem ríkissaksóknari hefur ákært fyrir manndráp af gáleysi mætti fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun ásamt verjanda sínum.

Andri Karl

andri@mbl.is

Hjúkrunarfræðingurinn sem ríkissaksóknari hefur ákært fyrir manndráp af gáleysi mætti fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun ásamt verjanda sínum. Var þá málið þingfest, en það er höfðað bæði á hendur hjúkrunarfræðingnum, konu á miðjum aldri, og vinnustað hennar, Landspítala.

Þingfestingin tók fljótt af en tók augljóslega á. Eftir að dómari málsins fór yfir helstu formsatriði spurði hann konuna hvort hún væri tilbúin að taka afstöðu til ákærunnar. Í samráði við verjanda sinn bað hún um stuttan frest til að fara yfir málið. Var ákveðið að frestur yrði veittur til 24. júní næstkomandi og fer þá fram stutt fyrirtaka til þess eins að fá fram afstöðu konunnar og eins Landspítala.

Aðspurðir af dómara sögðust verjendur ekki telja að úrskurða þyrfti um frávísunarkröfur eða önnur atriði áður en kæmi að aðalmeðferð. Verður því að teljast líklegt að aðalmeðferð í málinu geti farið fram í haust, í það minnsta fyrir áramót.

Auka þarf þekkingu lögreglu

Eins og fram hefur komið láðist konunni í starfi sínu að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hún tók sjúkling úr öndunarvél og setti talventil á rennuna 3. október 2012. Eftir það gat sjúklingurinn einungis andað að sér lofti en ekki frá sér, fall varð á súrefnismettun og blóðþrýstingi og sjúklingurinn lést.

Mikil umræða hefur skapast um málið enda í fyrsta skipti sem ríkissaksóknari sér ástæðu til að ákæra heilbrigðisstarfsmann fyrir manndráp af gáleysi. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, hefur meðal annars sagt að spítalinn hafi kallað eftir því að komið verði á nánara samstarfi heilbrigðisyfirvalda og lögreglu með það að markmiði að auka þekkingu og skilning á þeim flóknu aðstæðum og verkefnum sem unnin eru innan heilbrigðiskerfisins.

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, hefur sagt að tilkynningaskyldan hér sé mjög rík og leggi byrði á lögregluna að meta ýmis mál sem fylgi starfsemi spítalans. „Ef við erum komin með þennan veruleika þarf augljóslega að tryggja að til staðar sé nægileg þekking á flókinni sjúkrahússtarfsemi til að geta lagt mat á það hvers eðlis þessi frávik eru.“